Fullorðinsfræðsla

Undir þetta nám fellur meistaranám, matsveinanám og matartæknanám.

Matsveinn

Matsveinanám undirbýr nemendur undir störf í mötuneytum, á fiski- og flutningaskipum og minni ferðaþjónustufyrirtækjum. Matsveinar annast innkaup og móttöku á öllu hráefni. Þeir undirbúa hráefni til matargerðar og meðhöndlunar, afgreiða fæði úr eldhúsi og sjá um frágang á vinnusvæðis í samræmi við kröfur innra eftirlits. Þeir semja matseðla fyrir alla almenna matreiðslu og heimilismat í mötuneytum með fæðutengdar ráðleggingar Embættis landlæknis að leiðarljósi. Matsveinar hafa einnig hæfni til að útbúa fínni kvöldverðarétti, leggja á borð, framreiða mat og annast þjónustu.

Matartæknir

Matartæknanám er bóklegt og verklegt nám sem lýkur með fagprófi matartæknis á 3. námsþrepi. Matartæknanám er þrjár annir í skóla ásamt vinnustaðanámi í 15 vikur og starfsþjálfun í 38 vikur. Matartæknanám býr nemendur undir matreiðslu í eldhúsum heilbrigðisstofnana, leik-, grunn- og framhaldsskólum og mötuneytum vinnustaða. Matartæknar semja matseðla með fæðutengdar ráðleggingar Embættis landlæknis að leiðarljósi, breyta matseðlum fyrir einstaklinga sem þurfa á sérfæði að halda og skipuleggja innkaup. Þeir panta inn og taka á móti hráefni unnu og óunnu, undirbúa það til matargerðar og meðhöndla það til geymslu á viðeigandi hátt. Þeir matreiða máltíðir fyrir ólíka hópa, s.s. börn, unglinga, íþróttafólk og aldraða. Ennfremur þá sem þurfa á sérfæði og sjúkrafæði að halda og meta skammtastærðir hverju sinni. Þeir afgreiða fæði úr eldhúsi og stjórna skömmtunarfæribandi í stóreldhúsum. Þeir sjá um frágang samkvæmt heilbrigðisreglugerð. Matartæknar hafa einnig hæfni til að útbúa fínni kvöldverðarétti, leggja á borð, framreiða mat og annast þjónustu.

Meistaranám

Iðnmeistarinn ber ábyrgð á að miðla handverki sínu til nemandans og er endanleg ábyrgð á námi nemandans hjá meistara í viðkomandi iðngrein. Hann þarf því að búa yfir grunnþekkingu og yfirsýn varðandi stjórnun, rekstur og vera fær um að leggja sjálfstætt mat á einstaka þætti í rekstri fyrirtækisins ásamt því að annast kennslu í iðngrein sinni. Iðnmeistarar vinna við mismunandi aðstæður allt eftir eðli starfseminnar, stærð fyrirtækis og stöðu innan þess. Í litlu iðnfyrirtæki er meistarinn allt í senn; atvinnurekandi, stjórnandi, faglegur leiðtogi og kennari eða leiðbeinandi. Í stærri fyrirtækjum er oftast um að ræða hreinni verkaskiptingu þar sem meistarar gegna aðallega stjórnunarstörfum, faglegri umsjón og leiðsögn til nemenda og starfsmanna.

Síðast uppfært 27. október 2021