Vottað gæðakerfi MK

Menntaskólinn í Kópavogi hefur vottað gæðakerfi, ISO 9001:2008.

ISO 9001 vottunin staðfestir að Menntaskólinn í Kópavogi nálgist ferlastjórnun á verkefnum með kerfisbundnum hætti. Ferlar eru festir í sessi og skjalfestir, sem þýðir að þeir nemendur og um leið foreldrar sem fá  ákveðna þjónustu eiga alltaf að fá sambærilega þjónustu. Með vottuninni hlýtur MK alþjóðlega viðurkenningu á stjórnkerfi sínu og rekstri sem vekur traust jafnt meðal nemenda og foreldra og ætti að auðvelda allt gagnsæi á stjórn og rekstri skólans.

En getur lifandi og fjölbreytt skólastarf og staðlar á borð við ISO 9001 farið saman?  Það tók okkur vissulega tíma að sannfærast um að lifandi skólastarf og staðlar gætu átt samleið. Skólastarf er sérstakt og öðruvísi að mati þeirra sem þar starfa og þróunarstarf er fastur liður í skólahaldinu. Geta staðlar ekki orðið hamlandi fyrir slíkt? Hvað með orðfæri staðlanna, hugtök og skilgreiningar, eins og til dæmis viðskipavinur, aðföng og afurð, auðlindir, frávik? Á þetta heima í skólastarfi? Kalla staðlarnir ekki á mikla skriffinnsku? Þetta var meðal þess sem við í MK spurðum okkur að áður en við réðumst í þessa vinnu. Að vel athuguðu máli varð niðurstaðan sú að nýta ISO 9001 staðalinn til að treysta verklag innan skólans og tryggja nemendum okkar ákveðna gæðaþjónustu óháð því hver framkvæmdi hana.

Að skilgreina verklag og verkferla er kjarninn í gæðastjórnunarkerfinu samkvæmt ISO 9001. Í skólum er mikilvægt að verkferlar séu ljósir, svo sem hvernig skipuleggjum við kennslu, setjum upp kennsluáætlanir,  hvernig innritum við nemendur, hver er þjónusta bókasafns við nemendur, hvernig ráðum við starfsfólk, hvernig framkvæmum við námsmat, hvernig metum við gæði kennslunnar, hvernig stýrum við fjármálum? Samhliða ritun verkferla um þessa þætti og fleiri voru stefnuskjöl skólans yfirfarin, starfslýsingar endurskoðaðar, áfangalýsingar uppfærðar og komið á samræmdu formi fyrir kennsluáætlanir svo nokkuð sé nefnt. Viðurkenndir úttektaraðilar hafa frá árinu 2009 tekið út ISO 9001 gæðakerfi Menntaskólans í Kópavogi og gert það á hálfs árs fresti síðan.

Með tilkomu ISO 9001 gæðastjórnunarkerfisins í MK hefur áunnist margt. Starfsemi skólans er vel skilgreind og verklag og viðmið í skólastarfinu ljós. Rýni á einstökum verkferlum er í gangi jafnt og þétt, sem leiðir til stöðugra umbóta og skólinn uppfyllir kröfur framhaldsskólalaga um mat og eftirlit með gæðum í starfinu.  ISO 9001 er gott stjórntæki og kennarar og nemendur hafa lýst yfir ánægju sinni. Nýir starfsmenn tala um að kerfið sé aðgengilegt og ferlar skýrir. Það er samdóma álit okkar sem störfum í MK að ISO 9001 gæðakerfið hafi gert mjög góðan skóla að enn betri skóla.

 

 

Síðast uppfært 11. febrúar 2019