STE-001 Saga skólans

Tvö bindi hafa verið gefin út af sögu skólans:

Saga Menntaskólans í Kópavogi 1973-1983, útg. MK 1997 
Saga Menntaskólans í Kópavogi 1983-1993, útg. MK 1995

Ágrip af sögu skólans

Menntaskólinn í Kópavogi var settur í fyrsta sinn 22. september 1973 af Ingólfi A. Þorkelssyni, skólameistara. Í fyrstu fór starfsemi skólans fram í viðbyggingu við Kópavogsskóla og voru nemendur alls 125 talsins í sex bekkjardeildum en kennt var eftir bekkjarkerfi. Árið 1982 var kennslukerfinu breytt og tekið upp svokallað kjarnakerfi sem var millileið milli bekkjakerfis og áfangakerfis og MK varð því menntaskóli með fjölbrautarsniði. Haustið 1995 var kennslukerfinu breytt í hreint áfangakerfi.

Menntaskólinn í Kópavogi var til húsa í Kópavogsskóla fyrstu tíu árin en árið 1983 var starfsemi hans flutt í Víghólaskóla. Á vordögum 1991 hófust byggingaframkvæmdir við skólann og var fyrri hluti tekinn í notkun haustið 1993 þ.e. skrifstofuálma og húsnæði fyrir nýtt bókasafn. Þremur árum síðar var risið glæsilegt verknámshús fyrir hótel- og matvælagreinar og hófst kennsla í því haustið 1996. Árið 2002 var tekin sú ákvörðun að rífa norðurálmu skólans og byggja í hennar stað nýtt tveggja hæða bóknámshús með fyrirlestrarsal, auk sérbúinnar kennsluaðstöðu fyrir sérdeild skólans. Á 30 ára afmæli skólans 2003 var ný norðurálma tekin í notkun. Á 40 ára afmæli skólans árið 2013 var nýtt upplýsingatækniver tekið í notkun í austurhúsi skólans þar sem áður hafði verið hátíðarsalur.

Við stofnun Menntaskólans í Kópavogi árið 1973 var gefin út fyrsta skólanámskrá hans, Leiðarvísir 1. útgáfa 1973, en skólanámskrá tekur til allra þátta skólastarfsins og er í senn stefnuskrá skólans og starfsáætlun. Skólanámskrá byggir á Aðalnámskrá framhaldsskóla og greinir frá því með hvaða hætti MK hyggst ná þeim markmiðum sem aðalnámskrá setur framhaldsskólum.  Skólanámskrá hefur verið gefin út með reglubundnum hætti síðan. Vegleg útgáfa af skólanámskrá kom út árið 2001 en frá þeim tíma hefur námskráin verið á rafrænu formi og birt á heimasíðu skólans. Árlega gaf skólinn út Kverið með skóla- og prófareglum, starfsmannalista, skóladagatali o.fl. en með tilkomu heimasíðu MK fóru slíkar upplýsingar þangað.

Frá stofnun skólans var lögð áhersla á öfluga kennslu á bóknámsbrautum til stúdentsprófs í félagsgreinum, raungreinum, viðskiptagreinum og tungumálum en frá og með skólaárinu 1982-1983 hófst einnig kennsla í fornámsdeild fyrir þá nemendur sem ekki náðu tilskyldum árangri á grunnskólaprófi. Lögð var áhersla á stuðning í námi og samstarf við foreldra. Allar götur síðan hefur skólinn lagt áherslu á kennslu fyrir breiðan hóp nemenda og með nýrri skólanámskrá haustið 2010 var tilraunakennd ný braut fyrir sama nemendahóp undir nafninu framhaldsskólabraut.

Kennsla hófst í ferðagreinum við MK haustið 1987 og fyrstu leiðsögumennirnir voru útskrifaðir frá skólanum vorið 1992.  Kennsla hófst í verknámsdeildum skólans á hótel- og matvælasviði haustið 1996 í glæsilegum kennslurýmum. Boðið var upp á fjórar iðngreinar til lokaprófs og sveinsprófs þ.e. í bakstri, framreiðslu, kjötiðn og matreiðslu. Á sama tíma var einnig boðið upp á brautir fyrir matartækna og matsveina í fyrsta sinn innan skólans. Þá hófst kennsla á almennri braut matvælagreina sem síðar var breytt í grunnnám matvæla- og ferðagreina. Skólinn fékk heimild menntamálaráðherra haustið 1997 til að bjóða nám fyrir iðnsveina til meistararéttinda í matvælagreinum, nánar tiltekið í matreiðslu, framreiðslu, bakaraiðn og kjötiðn. Haustið 2007 hóf skólinn kennslu í hótelstjórnun í samstarfi við hinn virta hótelskóla í Sviss César Ritz. Kennsla stóð yfir til ársins 2013 en námið var skilgreint sem fyrsta árið til BA-háskólagráðu í stjórnun á sviði hótela, veitingahúsa og ferðaþjónustufyrirtækja.

Haustið 1999 hófst kennsla í sérdeild fyrir einhverfa nemendur við skólann en í aðalnámskrá var lögð áhersla á að nemendur með sérþarfir gætu stundað nám við hæfi innan framhaldsskólans. Kennslan fór í fyrstu fram utan skólans en með nýrri kennsluálmu sem tekin var í notkun haustið 2003 fluttist kennslan í sérhannað rými innan skólans.

Með tilkomu námsframboðs í verknámi og bóknámi var merki skólans endurnýjað í þrjár súlur, undir einum hatti, á traustum grunni. Nýtt merki skólans átti að tákna þau þrjú svið sem skólinn starfar á,  þ.e. bóknámssvið, ferðamálasvið og hótel- og matvælasvið en skólinn er kjarnaskóli í ferðagreinum og hótel- og matvælagreinum.

Ingólfur A. Þorkelsson lét af störfum sem skólameistari árið 1993 og við af honum tók Margrét Friðriksdóttir, skólameistari. Helgi Kristjánsson aðstoðarskólameistari gegndi starfi skólameistara skólaárið 2004-2005 í námsleyfi Margrétar Friðriksdóttur.

Árið 2001 setti skólinn sér metnaðarfulla stefnu um fartölvuvæðingu og að upplýsingatækni væri notuð sem verkfæri í allri kennslu.  Skólaárið 2001-2002 var unnið að uppsetningu á þráðlausu netkerfi í skólahúsnæðinu og öllum nýnemum á bóknámsbrautum var gert að hafa yfir að ráða fartölvu í námi sínu. Á 40 ára afmæli skólans var opnað nýtt upplýsingatækniver þar sem sameinað var hið klassíska bókasafn við tölvu, hugbúnaðar og upplýsingaþjónustu; en skólinn hefur alltaf lagt áherslu á að vera í fararbroddi framhaldsskóla við not á nýrri tækni við nám.

Menntaskólanum í Kópavogi hlotnaðist sá heiður að hljóta Jafnréttisviðurkenningu Jafnréttisráðs árið 2007 fyrstur framhaldsskóla. Í framhaldi af viðurkenningunni efndi skólinn til jafnréttisviku á vorönn 2008 undir yfirskriftinni  Jafnrétti-mannréttindi.  Æ síðan hefur skólinn tileinkað eina viku á vorönn jafnréttismálum með fjölbreyttri dagskrá um málaflokkinn. Þá var skólanum veitt viðurkenning árið 2013 frá umhverfis- og samgöngunefnd Kópavogsbæjar, vegna  „Framlags til umhverfismála“ og var það skólanum hvatning til áframhaldandi starfs á því sviði. Árlega eru haldnir umhverfisdagar í septembermánuði  með fjölbreyttri dagskrá um umhverfismál.

Mikill metnaður hefur verið í Menntaskólanum í Kópavogi við vinnu að innra mati og gæðastjórnun og 15. desember 2009 fékk skólinn vottun á gæðastjórnunarkerfi  skv. ISO 9001 alþjóðastaðli. Við innleiðinguna þarf skólinn að sýna fram á getu sína til að bjóða kennslu og menntun sem ávallt uppfyllir kröfur laga og reglugerða ásamt væntingum viðskipavina sem eru nemendur okkar.  Menntamálaráðuneytið veitti skólanum þróunarstyrk til að fullvinna gæðakerfið  en Vottun hf., sem er viðurkenndur úttektaraðili á ISO-gæðakerfum tekur starfið út tvisvar á ári. 

Það hefur oft verið þröngt setinn bekkurinn í MK og fór nemendafjöldinn hæst í 1563 árið 2008. Gera má ráð fyrir að fjöldi nemenda verði um 1000, að lokinni styttingu á námi í 3 ár, sem stunda nám á þremur sviðum þ.e. bóknámssviði, ferðamálasviði og hótel- og matvælasviði. Menntaskólinn í Kópavogi hefur alla tíð borið gæfu til þess að tapa ekki sjónar á mannauðnum og alltaf hefur starfað við skólann hæfileikaríkt fólk sem sinnir störfum sínum af áhuga og eldmóði.

Stjórnendur stefna að því að í Menntaskólanum í Kópavogi verði áfram boðið, jöfnum höndum, metnaðarfullt bóknám og verknám  og að námsframboð þróist enn frekar á þeim sviðum í takt við þarfir atvinnulífsins og nemenda á hverjum tíma.

 

Síðast uppfært 10. apríl 2019