Meðferð ágreiningsmála

Leitast skal við að leysa ágreiningsmál innan skólans. Ágreiningsmálum sem varða einstaka nemendur og ekki leysast í samskiptum einstaklinga skal vísa til skólameistara. Við vinnslu mála skal farið eftir ákvæðum laga um framhaldsskóla, stjórnsýslulaga um andmælarétt, meðalhóf o.fl., laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga auk upplýsingalaga.

Miðað skal við að námsráðgjafar séu hafðir með í ráðum við lausn ágreiningsmála sem varða skjólstæðinga þeirra.

Við töku ákvaðana um beitingu viðurlaga skal nemandi eða forráðamaður hans ávallt upplýstir um heimildir til að kæra ákvörðun skólans til mennta- og menningarmálaráðuneytis.

Samskipti nemenda starfsfólks, hegðun nemenda og brot á skólareglum

Rísi ágreiningur milli nemenda, milli nemenda og kennara og/eða annarra starfsmanna skólans og takist hlutaðeigandi ekki að finna lausn á málinu skal því vísað til skólameistara. Hið sama gildir komi fram upplýsingar um brot á skólareglum eða almennum hátternisreglum.

Ef hegðun nemanda reynist verulaga áfátt ber að leita orsaka þess og reyna að ráða á því bót m.a. með viðtölum við nemanda og forráðamenn sé nemandi yngri en 18. ára sbr. 3. mgr. 33. gr. a, laga um framhaldsskóla.

Áður en til beitingar viðurlaga kemur skal að jafnaði veita nemendum skriflega áminningu við fyrsta brot. Heimilt er að falla frá áminningu ef brotið er þess eðlis eða svo alvarlegt (s.s. ef jafnframt er um að ræða brot á almennum hegningarlögum) að það réttlæti beitingu viðurlaga þá þegar m.a. til að tryggja öryggi eða vinnufrið í skólanum.

Áður en til áminningar eða beitingar annarra viðurlaga kemur skal skólameistari tilkynna nemanda eða forráðamanni, sé nemandi yngri en 18. ára, skriflega að til greina komi að áminna nemanda eða beita öðrum viðurlögum. Það athugast að til greina getur komið að beita áminningu og öðrum viðurlögum s.s. tímabundinni brottvísun samtímis. Skal skólameistari gera grein fyrir því hvert brot nemanda var og hvaða viðurlögum fyrirhugað er að beita (möguleg tímabundin eða ótímabundin brottvísun úr skóla). Sé um að ræða áminningu skal gera grein fyrir áhrifum hennar t.d. að annað brot geti leitt til brottvísunar úr skólanum. Veita skal hæfilega tíma til andmæla. Að fengnum andmælum eða liðnum andmælafresti skal ákvörðun skólameistara tilkynnt nemanda, forráðamönnum sé nemandi yngri en 18 ára, með skriflegum hætti og gerð grein fyrir rétti nemanda/forráðamanna til að kæra ákvörðunina til mennta- og menningarmálaráðuneytisins.

Meðan mál er til meðferðar getur skólameistari vísað nemanda úr skóla um stundarsakir eða ótímabundið, enda tilkynni hann nemandanum eða forráðamönnum, sé hann yngri en 18 ára, tafarlaust þá ákvörðun. Ef um er að ræða brottvísun í meira en einn skóladag skal aðilum veittur frestur til að koma á framfæri andmælum áður en ákvörðun er tekin um brottvísun. Slíkur frestur getur verið mjög skammur enda kann að þurfa að taka slíka ákvörðun samdægurs. Um ákvörðun um brottvísum gilda ákvæði stjórnsýslulaga. Skólinn skal leiðbeina nemanda yngri en 18 ára, sem vísað er úr skóla ótímabundið, um mögulega endurkomu í nám óski hann þess. Að fengnum andmælum eða liðnum andmælafresti skal ákvörðun skólameistara tilkynnt nemanda, forráðamönnum sé nemandi yngri en 18 ára, með skriflegum hætti og gerð grein fyrir rétti nemanda/forráðamanna til að kæra ákvörðunina til mennta- og menningarmálaráðuneytisins.

Misferli í prófum

Nemandi sem staðinn er að misferli í prófi skal vísað frá prófi og getur hann átt von á brottvikningu úr skóla, tímabundið eða til frambúðar, eftir alvarleika brots sbr. verklagsreglu VKL-307 prófhald/brot á prófreglum. Sé brot metið alvarlegt fær nemandi fall í prófi og hefur fyrirgert rétti sínum til endurtökuprófs. Hið sama gildir um misferli þar sem námsmat felst í öðru en skriflegu eða munnlegu prófi.

Ágreiningur um námsmat

Komi upp ágreiningur milli nemenda og kennara um mat úrlausnar/lokaeinkunn sem ekki tekst að leysa þeirra á milli geta nemendur snúið sér til skólameistara og óskað eftir mati sérstaks prófdómara. Þá skal kveða til óvilhallan prófdómara sem metur prófúrlausnir. Úrskurður prófdómara gildir og verður ekki skotið til æðra stjórnvalds.

Brot á reglum um skólasókn

Á grundvelli reglna um skólasókn er hægt að vísa nemanda úr skóla vegna lélegrar skólasóknar og skal hann þá áður hafa fengið rafræna viðvörun úr INNU enda hafi verið ljóst að í óefni stefndi. Endanleg brottvikning er á ábyrgð aðstoðarskólameistara sem leitar umsagnar skólaráðs áður en til hennar kemur.

Ágreiningur um námsframvindu

Á grundvelli reglna um námsframvindu á einstökum námsbrautum er hægt að vísa nemanda úr skóla vegna hægrar námsframvindu. Endanleg brottvikning er á ábyrgð skólameistara sem leitar umsagnar skólaráðs skólans áður en til hennar kemur.

Meðferð undanþágubeiðna

Beiðni um undanþágu skal berast til skólameistara eða staðgengils hans. Umsókninni þarf að fylgja greinargóð lýsing á orsökum beiðni eða staðfesting utanaðkomandi fagaðila s.s. íþróttaþjálfara eða greiningaraðila. Á prófskírteini nemenda skal ávallt gerð grein fyrir undanþágum frá námsframvindu eða námsmati.

Síðast uppfært 22. mars 2024