Afrek - spurt og svarað

Algengar spurningar um afrekssviðið

Hvernig sendi ég meðmælabréfið?

Meðmælabréfið sendist á fagstjóra Afrekssviðs, Daða Rafnsson í netfangið dadi.rafnsson@mk.is Í því skal koma fram hvaða íþrótt nemandi stundar, í hvaða félagi og að hverju viðkomandi er að stefna með því að sækja um Afrekssvið MK. Einnig skulu fylgja ummæli frá þjálfara um viðkomandi.

Þarf að æfa með íþróttafélagi í Kópavogi til að fá inngöngu?

Nei

Þarf ég að vera með lágmarks meðaleinkunn úr grunnskóla?

Ekki er gerð krafa um lágmarks meðaleinkunn. Mörg dæmi eru um að nemendur á Afrekssviði hefji nám á framhaldsskólabraut.

Þarf ég að hafa náð afreksárangri í minni íþrótt til að fá inngöngu?

Ekki er gerð krafa um afreksárangur í íþróttum fyrir framhaldsskóla, en ætlast er til að nemendur nálgist íþrótt sína og nám með hugarfar afreksfólks að markmiði.

Er námið í MK krefjandi?

Nemendur frá Afrekssviði hafa fengið inngöngu í suma af mest krefjandi háskólum í heimi.

Hvað þýðir sveigjanleiki?

Við hjálpum þér að stilla upp námshraða sem hentar þér. Einnig geta nemendur Afrekssviðs fengið leyfi frá skólanum til íþróttaiðkunnar að uppfylltum skilyrðum.

Hver eru skilyrðin fyrir leyfi frá skóla?

Íþróttafélög og sérsambönd geta óskað eftir leyfi fyrir nemendur Afrekssviðs. Þeim ber að tilkynna ástæðu og lengd tíma frá skóla. Nemendur bera ábyrgð á því að upplýsa kennara sína og gera ráðstafanir í samvinnu við þá um hvernig haga skal verkefnaskilum. Foreldrar og nemendur geta ekki sótt sjálf um leyfi vegna íþróttaiðkunnar, en geta sótt um annars konar leyfi eins og aðrir nemendur skólans til skólaskrifstofu.

Eru gerðar meiri kröfur til nemenda Afrekssviðs en annarra nemenda um hegðun?

Nemendur Afrekssviðs lúta sömu reglum og aðrir nemendur varðandi agavandamál eða eignaspjöll og eru þau tekin fyrir af stjórnendum skólans. Alvarleg og endurtekin óæskileg hegðun nemanda, þar á meðal með því að beita aðra ofbeldi, kynþáttahatri, einelti eða niðurlægingu getur leitt til brottvísunar af sviðinu. Nemendur sem neyta áfengis, tóbaks og vímuefna eru ólíklegir til að ná árangri í sinni íþrótt og verði nemandi uppvís að því að brjóta landslög og reglur skólans hvað þau varðar getur það leitt til brottvísunar af sviðinu. Falli nemandi Afrekssviðs á lyfjaprófi er viðkomandi umsvifalaust vísað af Afrekssviði.

Síðast uppfært 05. júní 2023