Leyfi - Spurt og svarað

Spurt og svarað um leyfi á Afrekssviði

Hvernig sæki ég um leyfi vegna æfinga eða keppnisferða?

Nemendur Afrekssviðs Menntaskólans í Kópavogi geta fengið leyfi vegna æfinga-og keppnisferða óski félag eða sérsamband (landslið) eftir því. Foreldrar og nemendur geta ekki sjálf óskað eftir leyfum sem tengjast íþróttaiðkunn. Þjálfarar eða forsvarsfólk félaga eða sérsambanda (t.d. landslið) verða að skrá inn leyfisbeiðnina á rafrænt eyðublað sem má nálgast hér að neðan. Skilyrði fyrir leyfi er að nemandi láti kennara sína vita með eins góðum fyrirvara og mögulegt er og komist að samkomulagi við þá um skil á verkefnum og próftöku. Nemendur bera sjálfir ábyrgð á eigin námsframvindu og að allir kennarar og þjálfarar séu upplýstir um fjarveru.

Óskir um leyfi ótengd íþróttaiðkunn fara í gegnum skólaskrifstofu Menntaskólans í Kópavogi.

Hvernig sæki ég um leyfi vegna veikinda, læknisheimsókna, sjúkraþjálfunnar, heimsókna til sálfræðinga og önnur skammtímaleyfi sem tengjast ekki íþróttaiðkun?

Nemendur 18 ára og eldri og forráðamenn nemenda yngri en 18 ára þurfa að tilkynna veikindi samdægurs í gegnum Innu. Einnig er hægt að skrá nemanda í skammtímaleyfi t.d. vegna læknisheimsóka,tannlæknatíma og sjúkraþjálfunar í Innu. Ef nemandi er ekki skráður með veikindi eða leyfi fær hann fjarvistir. Hér eru nánari leiðbeiningar: Veikindi-skammtímaleyfi | Menntaskólinn í Kópavogi (mk.is)

Athugið að ekki er hægt að skrá inn veikindi og skammtímaleyfi afturvirkt.

Öll fjarvera er á ábyrgð nemenda og forrráðamanna og eru þeir hvattir til að fylgjast vel með í INNU og eru forráðamenn vinsamlegast beðnir um að taka börn sín ekki úr skóla á starfstíma skólans.

Get ég fengið leyfi í afrekstíma ef ég er að keppa sama dag eða dagana í kring?

Leyfi eru veitt óski þjálfarar og forsvarsmenn félaga eftir því. Almenna reglan er hinsvegar að nemendur mæta í afrekstíma. Þau sem eru að fara að keppa geta tekið þátt í léttara prógrammi en aðrir. Þjálfarar og forsvarsmenn félaga og sérsambanda eru beðin um að fara sparlega með leyfisbeiðnir en vera í góðu sambandi við forsvarsfólk Afrekssviðsins.

Félagið mitt æfir á skólatíma. Get ég fengið leyfi til að fara á æfingar?

Leyfi eru veitt óski þjálfarar og forsvarsfólk félaga eftir því. Forsvarsfólk félaga er þó beðið um að hafa heildarhagsmuni íþróttafólks síns í huga þegar ákvarðanir eru teknar um að hafa æfingar á skóla-eða vinnutíma. Reynslan á Afrekssviði MK sýnir að íþróttafólk getur lent í miklu álagi með að skipuleggja sig sem kemur niður á árangri í íþróttagreininni og námi.

Ég er meidd/ur. Á ég að sleppa afrekstíma?

Almenna reglan er sú að nemendur mæta í Sporthúsið séu þau meidd. Á þriðjudögum njóta þau leiðsagnar sjúkraþjálfara og á fimmtudögum styrktarþjálfara. Flestir geta gert eitthvað, og íþróttafólk sem glímir við meiðsli þarf að leggja vinnu í að halda heilsu og ná bata. Ef meiðslin eru þess eðlis að ekki er hægt að gera neitt (t.d. slæmt höfuðhögg eða rifbeinsbrot) er að sjálfsögðu mælt með að fara af stað í samráði við lækni eða sjúkraþjálfara.

Leyfi vegna ýmissa erfiðra mála

Nemendur okkar hafa lent í erfiðum málum á borð við slys, veikindi eða andlát í fjölskyldu. Sum hafa orðið fyrir ýmis konar áföllum og eru nemendur og forráðarmenn hvött til að láta námsráðgjafa og forsvarsmenn Afrekssviðs vita sem fyrst svo hægt sé að bregðast við á viðeigandi hátt.

Síðast uppfært 05. júní 2023