JARÐ3CA05 - Jarðfræði Íslands
Í áfanganum er lögð áhersla á að nemendur öðlist dýpri skilning á jarðfræði Íslands, sérstaklega hvað varðar eldvirkni landsins, bergtegundir, jökla og jarðskorpuhreyfingar. Lagt er upp úr því að nemendur setji þekkingu sína í samhengi við eldvirkni og flekarek á heimsvísu. Þá kynnast nemendur meðhöndlun jarðskjálftagagna, greina bergtegundir og fá þjálfun í notkun jarðfræðikorta. Helstu efnisatriði eru:
- Þróun hugmynda um rek jarðskorpufleka.
- Ísland og landrek, segultímatal.
- Jarðskjálftar og jarðskjálftamælingar.
- Steindir og greining steinda.
- Bergtegundir og greining þeirra.
- Uppruni kviku og mismunandi kvikugerðir.
- Eldvirkni á Íslandi.
- Eldstöðvakerfi.
- Helstu gerðir eldgosa.
- Jarðfræðikort og loftmyndir.
- Jöklar, jökulskrið og mismunandi gerðir jökla.
Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:
- Hugmyndum um þróun kenninga um rek jarðskorpufleka.
- Hugmyndum um landrek á Íslandi.
- Mismunandi gerðum jarðskjálftabylgja.
- Mismunandi bergmyndunum.
- Steindum og bergtegundum.
- Mismunandi kvikugerðum.
- Mismunandi gerðum eldgosa.
- Helstu eldstöðvakerfum landsins.
- Greiningu eldstöðvar til bergraðar.
- Helstu gerðum jökla.
- Einkennum framhlaupsjökla.
Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:
- Nota gögn frá jarðskjálftamælum til að staðsetja jarðskjálfta.
- Nota gögn frá jarðskjálftamælum til að reikna út stærð jarðskjálfta.
- Greina bergtegundir og holufyllingar.
- Teikna holufyllingabelti.
- Nota segultímatal til aldursgreininga.
- Nota jarðfræðikort til að greina aldur og gerð bergs.
- Nota höggunarkort til að greina höggun, aldur og eldvirkni.
- Nota loftmyndir til að greina jarðfræðileg fyrirbæri.
Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:
- Tengja saman mismunandi kvikugerðir, storknunarstað og bergtegundir.
- Yfirfæra bóklega þekkingu yfir á það sem sjá má í náttúrunni til dæmis í vettvangsferðum.
- Bera saman mismunandi eldstöðvakerfi.
- Bera saman mismunandi gerðir eldgosa.
Undanfari: JARÐ2BA05