Starfsbraut fyrir nemendur með greiningu á einhverfurófi

Starfsbrautin í MK er ætluð nemendum sem hafa notið verulegrar sérkennslu í grunnskóla, fengið kennslu í námsveri, sérdeild eða sérskóla. Námið er ætlað nemendum sem ekki geta nýtt sér almenn námstilboð framhaldsskóla en þurfa sérhæft einstaklingsmiðað nám er mætir færni þeirra og áhuga. Námsmat er fjölbreytt og aðferðir taka mið af fjölbreytilegum kennsluháttum, námsmarkmiðum og hæfni nemenda.

Námið á starfsbraut hefur það að markmiði að stuðla að því að nemendur fái tækifæri til að spreyta sig í fjölbreyttum viðfangsefnum í bók- og verklegu námi. Markvisst er unnið að því að auka sjálfstæði og sjálfsábyrgð nemenda með því að gera þá meðvitaðri um eigin persónu, félagsleg samskipti og umhverfið.

Nemendur eiga kost á því að stunda nám við hæfi og auka þekkingu sína og færni til að takast á við viðfangsefni og verkefni dagslegs lífs. Markmiðið er að undirbúa nemendur undir þátttöku í atvinnulífinu eða frekara nám.

Mikilvægt er að nemendur þjálfist í félagsfærni og geri sér grein fyrir mikilvægi þess að virða sjónarmið annara og beri virðingu fyrir fjölbreytileika mannlífsins.

Námsgreinar sem kenndar eru á brautinni eru:

  • íslenska
  • enska
  • stærðfræði/fjármál
  • samfélagsgreinar
  • upplýsingatækni
  • lífsleikni
  • verklegir áfangar – matreiðsla, framreiðsla, bakstur
  • íþróttir
  • lýðheilsa

Starfsbrautin starfar eftir skóladagatali Menntaskólans í Kópavogi. Kennsla hefst seinni hluta ágúst og lýkur um miðjan maí. 

Síðast uppfært 30. október 2023