JARÐ4AL04 - Jarðfræði svæða
Í áfanganum er tekin fyrir jarðfræði ferðamannasvæða á Íslandi. Lögð er áhersla á jarðfræðileg sérkenni hvers svæðis fyrir sig og myndun helstu fyrirbrigða á tilteknum svæðum. Þar má t.d. nefna jarðhitann í kringum Reykjavík, eldvirkni og jarðhita á Reykjanesi, náttúrufar, sig og vatnsbúskap Þingvalla og tengslin við sögu landsins. Háhitasvæðið í Haukadal, Vatnajökul og eldstöðvarnar sunnanlands, eldvirkni á Snæfellsnesi, í Þingeyjarsýslum og á miðhálendinu og fyrirbæri eins og hvilftirnar á Vestfjörðum. Samhliða er umræða um náttúruvernd og fylgst með því helsta sem uppgötvast í jarðfræði Íslands á hverjum tíma.
Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:
- Jarðfræðilegum sérkennum mismunandi landssvæða, s.s. eldgosasögu Íslands, virkum gossvæðum og jarðskjálftasvæðum.
- Jarðhita í mismunandi landshlutum og nýtingu hans hér á landi meðal annars m.t.t. sjálfbærni.
- Jöklum, jökulrofi (sjálfbærni jökla) og jöklabúskap á mismunandi svæðum.
- Hagnýtum jarðefnum.
- Virkjun vatnsafls og gufuafls víða um land.
- Steinda- og bergfræði.
- Kenningum jarðfræðinga um helstu náttúrufyrirbrigði sem sjást á ferðamannaleiðum og ferðamannastöðum.
Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:
- Greina einstök landsvæði út frá jarðfræðilegum sérkennum, jarðhita og jökulbúskap.
- Nálgast einstök landsvæði með náttúruvernd og öryggi í huga.
- Átta sig á mismunandi steindum og bergfræði.
- Útskýra mikilvægi vatns- og gufuafls víða um land.
Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:
- Útskýra og setja í samhengi jarðsögu íslands á mismunandi svæðum.
- Aðgreina helstu náttúrufyrirbrigði í hverjum landshluta fyrir sig.
Undanfari: Nemandi þarf að hafa lokið a.m.k. 10 einingum í kjarna leiðsögunáms, JARÐ3JÍ04.
Námsmat: Sjá kennsluáætlun.