Söguáfangi með námsferð til Póllands þar sem gist verður í 4 nætur Kraká. Farin verður dagsferð í Auschwitz og Schindlerssafnið verður skoðað ásamt öðrum sögulegum stöðum í Kraká. Helförin verður skoðuð frá ýmsum hliðum þar sem saga gyðingaofsókna í Evrópu verður sett í samhengi við uppgang nasismans í Þýskalandi. Farið verður yfir þróun borgaralegra réttinda gyðinga á millistríðsárunum og hvernig þau enduðu með þjóðarmorði. Sérstök áhersla verður á sögu gyðinga í Þýskalandi og Póllandi og hugmyndafræði nasismans sem verður rannsökuð ítarlega. Einnig verður farið yfir ofsóknir annara jaðarhópa í Þriðja ríkinu. Að endingu verður helförin sett í samhengi við þjóðernishreinsanir og flóttamannavandamál sem hafa átt sér stað síðan. Nemendur lesa valdar greinar frá kennara og horfa á viðtöl við eftirlifendur helfararinnar ásamt heimildamyndum
Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:
- Gyðingaofsóknum og örlögum gyðinga í seinni heimsstyrjöld og annara jaðarhópa í Þriðja ríkinu.
- Sögu þýskra þjóðernissósíalista og hugmyndafræði þeirra.
- Menningu og sögu Póllands í seinni heimsstyrjöld.
- Sögu og starfsemi útrýmingabúðanna í Auschwitz.
Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:
- Beita sjálfstæðum vinnubrögðum við öflun heimilda og úrvinnslu þeirra.
- Tjá sig í ræðu og riti um efni áfangans, rökræða efnið og geta miðlað því á fjölbreyttan máta.
- Skilgreina þau hugtök sem áfanginn fjallar um.
- Greina áreiðanleika heimilda og upplýsinga sem er að finna um efnið.
- Lesa fræðilega texta á íslensku og erlendum málum um efni áfangans.
Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:
- Skilgreina orsakir þessara voðaverka, gera sér grein fyrir afleiðingum þeirra bæði staðbundið og á heimsvísu.
- Átta sig á hvers vegna leiðtogar og hópar hvetja til voðaverka gegn þjóðum, þjóðarbrotum og etnískum hópum.
- Greina orsakir þess að stórþjóðir og alþjóðastofnanir eru oft svifaseinar og getulitlar í málum þeim sem áfanginn fjallar um.
Undanfari: SAGA2BA05 eða SAGA2BB05 eða SAGA2BC05