FEM102 - Ferðamennska

Í áfanganum er farið í helstu þætti ferðamennsku. Sérstök áhersla er lögð á rötun, kennslu á áttavita og staðsetningu með GPS-tækjum. Verkleg æfing fer fram á vettvangi. Kortalestur er kenndur og mismunandi gerðir korta skoðaðar. Tekinn er fyrir útbúnaður til göngu og fjallaferða með áherslu á klæðnað, næringu og orku. Farið er í veðurfræði til fjalla, eðli straumvatna og ferðalög í brattlendi. Fjallað er um mikilvægi góðrar fararstjórnar og viðbrögð við óvæntum aðstæðum í hópi, ásamt umgengni á tjaldstæðum og í fjallaskálum.

Markmið

Nemandi kunni skil á

  • notkun áttavita og GPS-tækja, kortalestri, leiðarvali og tímaáætlunum
  • búnaði til göngu- og fjallaferða, s.s. fatnaði, skóm, svefnpokum, tjöldum, prímusum, eldhústjöldum og tilheyrandi búnaði til eldamennsku í rútu- og trússferðum, einnig öryggisbúnaði leiðsögumanns
  • grunnatriðum næringarfræði og samsetningu nestis, geta eldað ofan í lítinn hóp ferðamanna og haldið utan um birgðir í langri gönguferð
  • mismun og eðli straumvatna, vali á vaði og mismunandi aðferðum til að vaða straumharðar ár
  • notkun á mismunandi fjallalínum til öryggis í brattlendi og þekkja algengustu hnúta og tryggingaraðferðir
  • vali á tjaldstæði með tilliti til umhverfisþátta, uppsetningu tjaldbúða, frágangi tjalda, hreinlæti á tjaldstæði, umgengni við fjallaskála og aðra gististaði