FEÞ101 - Ferðaþjónusta

Í áfanganum er rakin saga og þróun ferðaþjónustu í heiminum og á Íslandi. Kynnt grundvallarhugtök í ferðafræði og farið í hinar ýmsu starfsgreinar ferðaþjónustu og ferðaframboð. Farið er í ferlið frá því að ferð er skipulögð, kynnt og seld erlendis þar til ferðamennirnir koma til landsins. Lögð er áhersla á lög og reglugerðir í íslenskri ferðaþjónustu, öryggismál, ábyrgð, tryggingar og leyfi. Fjallað er um hlutverk og starfsemi opinberra stofnana og félaga innan ferðaþjónustunnar, ferðakannanir, tölulegar upplýsingar og þýðingu þeirra fyrir ferðaþjónustuna. Nemendur fara í heimsókn á ferðaskrifstofu og kynna sér hagnýt atriði í samskiptum leiðsögumanns og skrifstofanna, einnig helstu ferðagögn, ferðaáætlanir, ferðaframboð og markaðssetningu ferða. Lögð er áhersla á að nemendur afli sér upplýsinga af veraldarvefnum.

Markmið

Nemandi á að þekkja

 • sögu og þróun ferðaþjónustu í heiminum og á Íslandi
 • grundvallaratriði úr ferðafræði og hugtök sem þar eru notuð
 • lög og reglur í íslenskri ferðaþjónustu, réttindi og skyldur og nauðsynleg leyfi
 • öryggismál, tryggingar, neytendavernd, skaðabætur, ábyrgð
 • hinar ýmsu starfsgreinar ferðaþjónustu, s.s. ferðaskrifstofur, ferðaskipuleggjendur, hópbíla, bílaleigubíla, hótel, gististaði, veitingastaði
 • ferðaframboð, s.s. rútuferðir, gönguferðir, jeppaferðir, vélsleðaferðir, flúðaferðir, hestaferðir, hundasleðaferðir, fossaklifur, afþreyingarferðir, áhættuferðir
 • helstu hugtök sem notuð eru innan ferðaþjónustunnar, s.s. hvataferð, afþreyingarferð, menningartengda ferðaþjónustu, heilsutengda ferðaþjónustu, græna ferðamennsku
 • hlutverk og starfsemi Ferðamálastofu, Samtaka ferðaþjónustunnar og annarra félaga á þessu sviði
 • helstu útgefna bæklinga, markmið landkynningar og markaðssetningu Íslands
 • ferlið frá því að ferð er skipulögð, kynnt og seld erlendis þar til ferðamennirnir koma til landsins
 • ferðamálakannanir og þýðingu þeirra, tölulegar upplýsingar um tekjur af ferðaþjónustu, fjölda ferðamanna, skiptingu þeirra eftir þjóðerni og komutíma