FJM101 - Fjallamennska I

Í áfanganum er farið í grundvallaratriði vetrarfjallamennsku. Tekinn er fyrir búnaður til fjallamennsku, leiðaval og snjóflóðahætta. Leiðbeint er um göngu í snjó og notkun ísaxar og ísaxarbremsa. Einnig göngu á mannbroddum og snjó- og ístryggingar. Fjallað er um hnúta, línumeðferð, sig, létt snjó- og ísklifur. Áfanginn er að stærstum hluta verklegur, þ.e. tveggja daga fjallaferð þar sem gist er í skála, snjóhúsi eða tjöldum. Nemendur þurfa að hafa góða skó og mannbrodda, sigstól, hjálm, ísöxi, snjóflóðaýli, snjóflóðastöng og skóflu. Þá er og þörf fyrir vind- og vatnsheldan fatnað, svo og almennan ferðabúnað.

Markmið

Nemandi kunni skil á

  • helstu undirstöðuatriðum í fjallamennsku til að hann geti bjargað sér í fjalllendi við íslenskar vetraraðstæður
  • helstu tækjum og búnaði við fjallamennsku að vetrarlagi, s.s. að nota ísöxi, mannbrodda og klifurbúnað í brattlendi
  • helstu tryggingaraðferðum í snjó
  • grunnaðferðum við mat á snjóflóðahættu
  • gerð neyðarskýla, snjóhúsa og tjöldun að vetrarlagi