Matsveinanám er 120 eininga, þrepaskipt, bóklegt og verklegt nám sem lýkur með fagprófi matsveins á 2. námsþrepi. Matsveinanám er tvær annir í skóla og 34 vikur á starfsnámsstað. Það býr nemendur undir störf í mötuneytum, á fiski- og flutningaskipum og minni ferðaþjónustufyrirtækjum. Matsveinar semja matseðla fyrir alla almenna matreiðslu í mötuneytum með fæðutengdar ráðleggingar Embættis landlæknis að leiðarljósi. Þeir öðlast færni í að breyta matseðlum fyrir einstaklinga með sérþarfir s.s. ofnæmi og óþol og þá sem velja að nota gænmetisfæði. Þeir annast innkaup og móttöku á öllu hráefni. Þeir undirbúa hráefni til matargerðar og meðhöndlunar,afgreiða fæði úr eldhúsi og sjá um frágang á vinnusvæðis samkvæmt heilbrigðisreglugerð. Matsveinar hafa einnig hæfni til að útbúa fínni kvöldverðarétti, leggja á borð, framreiða mat og annast þjónustu.
Inntökuskilyrði
Nemendur þurfa að hafa gott vald á íslensku bæði töluðu- og rituðu máli.
Til að hefja matsveinanám er um tvær námsleiðir að ræða:
Nemandi sem lokið hefur námi í samræmi við aðalnámskrá grunnskóla getur innritast í matsveinanám. Samhliða skólanámi er vinnustaðanám og starfsþjálfun sem skólinn aðstoðar nemendur við að skipuleggja eftir aðstæðum. Eldri nemendur sem sækja í matsveinanám þurfa að hafa náð 23 ára aldri og hafa a.m.k. 1 árs starfsreynslu frá viðurkenndu mötuneyti eða veitingastað og leggja fram gögn því til staðfestingar. Eldri nemendum stendur til boða raunfærnimat skv. reglum sem um það gildir. Með raunfærnimati getur nemandi fengið þekkingu sína og reynslu metna upp í formlegt skólanám.
Skipulag
Matsveinanámið er skipulagt sem 2 annir í skóla. Nemendur þurfa jafnframt að ljúka 34 vikna vinnustaðanámi og starfsþjálfun á viðurkenndum starfsnámsstað þ.e. í mötuneyti, veitingahúsi eða öðrum viðurkenndum starfsnámsstað. Námið er kennt eftir klukkan 17:00 á daginn.
Áfangar á brautinni
Heiti fags, (einingar) skammstöfun fags og skammstöfun áfanga með tengli í áfangalýsingu
- Aðferðarfræði í matreiðslu (8) AFMA 1MT04, 2MA04
- Hráefnisfræði matreiðslu (3) HEMF 2HF03
- Innraeftirlit og matvælaöryggi (2) IEMÖ 1GÆ02
- Matseðlafræði (2) MASF 2MF02
- Matreiðsla (20) MATR 1MG10, 2MA10
- Matur og menning (2) MOME 2MM02
- Nám og tölvur (3) NÁTÖ 1UT03
- Næringarfræði, grunnur (5) NÆRG 2FV05
- Soð, sósur og eftirréttir, súpur (4) SSSE 2GS04
- Starfsþjálfun á vinnustað fyrir matsveina (50) SÞMS 1MS25, 2MS25
- Tækjafræði, aðbúnaður og starfsumhverfi (2) TFAS 1ÖU02
- Verkleg þjálfun matsveina í skóla (10) VÞMS 1MS05, 2MS05
- Þjónað til borðs (5) ÞTBF 2ÞT05
- Örverufræði (2) ÖRVR 2HR02
- Öryggismál og skyndihjáp (2) ÖRSK 1ÖR02
Hæfniviðmið
Að loknu námi skal nemandi hafa hæfni til að
- vinna sjálfstætt við matreiðslu og afgreiðslu í minni mötuneytum, ferðaþjónustufyrirtækjum og á fiski- og flutningaskipum
- útskýra vinnuferla sem bygga á aðferðafræði er lýtur að almennri matreiðslu
- reikna út hollustu- og næringargildi helstu framleiðsluvara og aðlaga matarskammta að neysluþörfum markhópa og einstaklinga
- útfæra matseðla fyrir ólíka hópa s.s. börn, unglinga, aldraða
- útfæra matseðla fyrir grænmetisfæði og ofnæmis- og óþolsfæði
- nýta almenna og sértæka þekkingu til að matreiða hollan mat sem svarar mismunandi þörfum einstaklinga
- matreiða fæðu sem tekur tillit til ólíkra menningarheima og trúarbragða
- gera pöntunar- og verkefnalista, forgangsraða verkefnum og undirbúa vinnusvæði
- rökstyðja val sitt á hráefni og aðferðum með skírskotun til íslenskra matreiðsluaðferða og hefða
- vinna samkvæmt gæðastöðlum um innra efirlit HACCP í eldhúsum hvað varðar viðmiðunarmörk um hitastig, hreinlæti og vinnureglur um rekjanleika vöru, þjónustu og afgreiðslu á vörum
- vinna samkvæmt gildandi lögum og reglugerðum er lúta að öryggi og aðbúnaði á vinnustöðum
- vinna við þrif og sótthreinsun á vinnuflötum, tækjum, og áhöldum og hafa eftirlit með slíkum þrifum í samræmi við gildandi staðla og reglur um hreinlæti og meðferð spilliefna
- taka ábyrga afstöðu til sjálfbærni í nýtingu afurða í matreiðslu
- afla hagnýtra upplýsinga og greina á milli áreiðanleika þeirra og fræðilegs gildis sem lúta að störfum í matreiðslu
- tjá og rökstyðja skoðanir sínar og niðurstöður við val á aðferðum við meðferð hráefnis
- tileinka sér víðsýni, gagnrýna hugsun og samkennd