Kjötiðn

Kjötiðnaðarmaður útbýr kjöt og kjötrétti í neytendapakkningar, setur upp kjötborð og afgreiðir viðskiptavini. Hann starfar m.a. í kjötvinnslu, í kjötdeildum verslana, í sláturhúsum, við sölu á matvælum. Hann ber ábyrgð á útkomu vinnu sinnar gagnvart viðskiptavinum.

Kjötiðnaðarmaður vinnur í samræmi við gæðaferla og gæðastaðla um innra eftirlitskerfi vinnustaða, vinnureglur um rekjanleika vöru og þjónstu sem og á afgreiðslu á vörum og þjónustu og almennar siðareglur. Kjötiðn er löggilt iðngrein.

Inntökuskilyrði

Nemendur skulu hafa lokið grunnskólaprófi eða ígildi þess. Til að hefja nám á brautinni þurfa nemendur að vera á námssamingi í iðngrein kjötiðnaðar og hafa gott vald á íslensku bæði töluðu- og rituðu máli. Til að hefja nám í öllum áföngum á brautinni þurfa nemendur að vera á námssamningi í kjötiðn. Til að hefja nám á 2. hæfniþrepi í kjarnagreinum, þarf nemandi að hafa náð hæfnieinkunn B við lok grunnskóla eða lokið fyrsta þreps áfanga í þeim greinum.

Nánar um inntökuskilyrðin

Skipulag

Kjötiðnaðarnám er verklegt og bóklegt samningsbundið starfsnám á 3. hæfniþrepi sem lýkur með sveinsprófi í kjötiðn. Það er skipulag sem fjögurra ára 290 eininga nám. Þar af eru 200 einingar á viðurkenndum vinnustað í 126 vikur utan lögbundinna fría og 90 einingar í skóla í þrjár annir.   Námið fer fram í viðurkenndum kjötvinnslum og kjötiðnaðarfyrirtækjum þar sem starfandi er meistari með leyfi til töku nemenda í kjötiðnaðarnám.

Áfangar á brautinni

Heiti fags, (einingar) skammstöfun fags og skammstöfun áfanga með tengli í áfangalýsingu 

  • Enska  (5)  ENSK  2BA05
  • Innra eftirlit og matvælaöryggi  (2)  IEMÖ  1GÆ02
  • Fagfræði kjötiðnaðar  (16)  KJÖF  1VÖ08, 3PG05, 4PG03
  • Íslenska  (5)  ÍSLE  2BA05
  • Íþróttir  (3)  ÍÞRÓ  1AA01, 1AA011AA01
  • Kjötiðnaður (42)  KJÖT  2KM20, 3PY22
  • Nám og tölvur (3)  NÁTÖ  1UT03
  • Næringarfræði  (5) NÆRG  2FV05
  • Stærðfræði  (5)  STÆR  2SM05
  • Öryggismál og skyndihjáp  (2)  ÖRSK  1ÖR02
  • Örverufræði  (2)  ÖRVR  2HR02

 Uppbygging námsins eftir önnum

Upplýsingar um hvernig námið er uppbyggt

Lokamarkmið

Að loknu námi skal nemandi hafa hæfni til að

  • saga og hluta niður kjötskrokka og úrbeinar lamb, naut, svín, hross og aðrar kjötafurðir eftir gefnum stöðlum og nýtingaráformum
  • vinna úr hvers kyns hráefni úr kjöti og gerir hann m.a. fars, pylsur, kæfur, paté, slátur og álegg
  • krydda og kryddleggja kjöt og vinna að meyrnun þess. Útbúa kjöt og kjötrétti til sölu í kjötborði
  • taka á móti unnu og óunnu hráefni, flokka það og meta ástand og gæði þess með hliðsjón af umbúðamerkingum, hitastigi og almennum gæðakröfum og ganga frá hráefninu til geymslu
  • nota efni við framleiðslu kjötiðnaðarvara í samræmi við lög og reglugerðir um heilbrigðis- og hollustuhætti og getur aukið geymsluþol matvæla með kælingu, frystingu, lofttæmingu, söltun, suðu, reykingu og súrsun á kjöti og fiskafurðum
  • pakka framleiðsluvörum í neytendapakkningar og útbúa innihaldslýsingar í samræmi við gildandi lög og reglur um merkingar og pökkun viðkomandi vöru
  • reikna út hollustu- og næringargildi helstu framleiðsluvara
  • útbúa afurðir fyrir einstalinga með fæðuofnæmi og fæðuóþol
  • afgreiða viðskiptavini og veita ráðgjöf og leiðsögn um meðferð hráefna, matseld og val á meðlæti með kjötréttum
  • sýna viðskiptavinum sínum þjónustulund og býr yfir hæfni til góðra samskipta
  • nota handverkfæri og hefur góða færni í skurði, úrbeiningu og snyrtingu á kjötskrokkum
  • þrífa og sótthreinsa húsnæði og búnað samkvæmt stöðluðum hreinlætiskröfum HACCP
  • hafa vald á fagorðum greinarinnar og getur tjáð sig og leiðbeint um fagleg málefni á íslensku og erlendum tungumálum.Hann tekur ábyrga afstöðu til sjálfbærni og hefur tileinkað sér hugmyndafræði um sjálfbæra nýtingu sláturdýra
  • hafa færni í ensku, íslensku og stærðfræði sem svarar til krafna af öðru náms þrepi.
Síðast uppfært 25. nóvember 2024