Hvernig kemst ég á samning?

Hvernig kemst ég í matvælanám þ.e. bakstur, framreiðslu (þjóninn), kjötiðn eða matreiðslu (kokkinn) og hvaða leiðir eru inn í námið.

  • Grunnnám matvæla- og ferðagreina
  • Námssamningur
  • Raunfærnimat

 

Grunnám matvæla- og ferðagreina

Grunnnám matvæla- og ferðagreina er námsbraut fyrir nemendur sem eru að ljúka 10. bekk í grunnskólum og/eða nemendur fram til 18 ára aldurs. Námið er fyrir nemendur sem stefna að frekara námi og störfum í matvæla- og ferðagreinum. Námið er hugsað sem undirbúningur fyrir iðnnám í bakstri, framreiðslu, kjötiðn, matreiðslu og einnig er það undirbúningur fyrir frekara nám í matartækni og/eða í ferðaþjónustu. Í framhaldi af brautinni geta nemendur farið í frekara nám að eigin vali. Áfanga af brautinni er hægt að meta inn á aðrar námsbrautir bæði í verknámi og bóknámi. Nemendur fara í starfskynningu á vinnustað í ferða- eða matvælagreinum að eigin vali í eina viku á vorönn. Þar skapast oft tækifæri til að fara á námssamning í iðngrein sem nemandann langar að læra. Skólinn aðstoðar nemendur sem standa sig vel á brautinni í því að komast á námssamning eftir því sem við verður komið.

Frekari upplýsingar veita áfangastjóri, námsstjóri og námsráðgjafar skólans.

Námssamningur – hvernig kemst ég á samning?

Nemandi sem vill hefja nám í matvælagreinum getur farið beint á samning hjá viðurkenndum námsstað í öllum greinum matvælanáms. Þeir sem eru orðnir 18 ára fara einnig þessa leið, þ.e. að fara beint á námssamning. Nemandi sem hefur störf á námsstað er til reynslu fyrstu þrjá mánuðina. Undirrita þarf námssamning strax á fyrsta mánuði. Námið tekur eftir atvikum þrjú til fjögur ár, misjafnt eftir brautum. Á þeim tíma sem nemendur eru á námssamningnum koma þeir í skólann á þrjár annir og skiptast þær niður á námstímann. Iðan fræðslusetur heldur utan um námsstaði sem hafa leyfi til að taka nemendur á samning og eru upplýsingar um það á heimasíðu þeirra idan.is undir matvæla- og veitingagreinar.

Frekari upplýsingar veita áfangastjóri, námsstjóri og námsráðgjafar skólans.

Raunfærnimat

Til nokkurra ára hefur einstaklingum með mikla starfsreynslu úr matvælagreinum staðið til boða að fara í raunfærnimat. Matið byggir á þeirri reynslu og þekkingu sem einstaklingur hefur aflað sér með starfi í viðkomandi iðngrein á vinnumarkaði. Dæmi eru um að nemendur hafi fengið styttingu á námstíma í matvælagreinum í gegnum raunfærnimatið og hefur nemendum sem haldið hafa áfram inn í nám í greinunum undantekningarlaust gengið vel. Iðan fræðslusetur heldur utan um raunfærnimatið og eru skilyrði fyrir þátttöku að viðkomandi hafi náð 23 ára aldri og að hafi unnið í þrjú ár í viðkomandi grein. Þeir sem taka þátt í raunfærinmati þurfa að staðfesta starfsreynslu sína. Nánari upplýsingar um raunfærnimatið veita náms- og starfsráðgjafar Iðunnar fræðsluseturs í síma 5906400.

 

Síðast uppfært 24. mars 2020