Mat á fyrra/öðru námi

Þegar nemandi innritast í MK með námsferil úr öðrum framhaldsskóla, sem starfar skv. aðalnámskrá framhaldsskóla, eru þeir áfangar sem hann hefur lokið með fullnægjandi árangri metnir svo framarlega sem þeir eru skilgreindur hluti af þeirri braut sem hann innritast á. Nemandi getur ýmist fengið áfanga metna fyrir sambærilega áfanga í MK eða ef ekki er til sambærilegur áfangi í MK fær nemandinn einingarnar metnar í stað valáfanga að því marki sem nemur valgreinakvóta viðkomandi brautar. Innheimt er gjald fyrir mat á öðru námi.

Tekið er tillit til sérreglna þess skóla sem nemandinn kemur frá í atriðum sem kunna að hafa áhrif á einingastöðu nemandans. Nám úr öðrum skólum er metið með einkunn, þ.e. einkunn flyst með nemandanum og er auðkennt með stjörnu (*) í INNU og á útskriftarskírteini.

Nemandi sem stundar fjarnám og/eða nám í sumarskóla jafnhliða námi í MK þarf að fá skriflegt samþykki áfangastjóra/námsstjóra/ námsráðgjafa skólans áður en hann skráir sig, t.d. með tölvupósti. Einnig ber hann ábyrgð á að fylgja því eftir að þeir áfangar sem hann lýkur þannig verði fluttir í námsferil.

Mat á námi úr erlendum skólum er skoðað sérstaklega í hverju tilfelli fyrir sig. Nemendi sem hefur verið búsettur erlendis og verið í námi á sambærilegu stigi getur fengið það nám að einhverju leyti metið. Það er mikilvægt að nemandi framvísi gögnum sem sýna hvaða námi hann hefur verið í, einkunnum, lengd náms og kennsluáætlunum.

Nemandi sem hefur dvalið erlendis sem skiptinemi á vegum AFS, Rótarý o.fl. getur fengið allt að 15 einingum á fyrsta þrepi í frjáls val, framvísi hann viðurkenndu skjali frá skiptinemasamtökunum.

Nemandi sem hefur búið erlendis eða verið í skiptinámi getur tekið stöðumat í eftirfarandi tungumálum: dönsku, ensku, frönsku, spænsku, þýsku. MK býður upp á stöðupróf fyrsta kennsludag á haustönn og vorönn. Greitt er fyrir stöðupróf samkvæmt gildandi gjaldskrá skólans hverju sinni.

Hámarkseiningafjöldi sem nemendur geta fengið í stöðupróf eru:

Danska : 10 einingar
Enska: 15 einingar
Önnur mál : 20 einingar

Mat á öðru námi:

Tónlistarnám (TÓNL): 10 einingar á öðru hæfniþrepi hafi nemandi lokið miðprófi á hljóðfæri og í tónfræðigreinum.

Listdansnám (LDSK): 10 einingar á öðru hæfniþrepi stundi nemandi listdansnám hjá viðurkenndum listdansskóla. Fari nemandinn upp á þriðja þrep í listdansnáminu getur hann sótt um að fá einn áfanga á því þrepi metinn.

Flugnám (FLUG): 10 einingar á þriðja hæfniþrepi fyrir bóklega hlutann og 5 einingar fyrir verklega hlutann á þriðja hæfniþrepi. Nemandi þarf að skila inn skírteini frá Samgöngustofu fyrir bæði bóklega og verklega hlutann.

Knapamerki (KNAP):

  • Nemandi getur fengið eitt knapamerki metið í stað einnar íþróttaeiningar.
  • Nemandi sem lýkur þremur knapamerkjum fær 5 einingar á fyrsta þrepi. Nemandi skilar inn staðfestingu frá Háskólanum að Hólum.

Þjálfaranámskeið KSÍ (UEFA): 150 klukkustunda námskeið á vegum KSÍ er metið til 5 eininga á fyrsta hæfniþrepi.

Dale Carnegie (DALE): Nemandi sem lýkur námskeiði á vegum Dale Carnegie, eða hjá sambærilegum aðila, fær 2 einingar á fyrsta hæfniþrepi uppfylli námskeiðið kröfur um tímafjölda. Nemandi þarf að skila inn staðfestingu frá námskeiðshaldara.

Landsbjörg (BJÖR): Björgunarmaður 1 gefur 5 einingar á fyrsta hæfniþrepi. Nemandi þarf að ljúka öllum þáttum til að geta fengið metið og skila inn staðfestingu frá Landsbjörg.

Fyrsta hjálp 1 (SKYN):1 eining á öðru hæfniþrepi fyrir 20 klst námskeið hjá Landsbjörg (lágmarkseinkunn = 7)

Sjúkraflutninganám (SJÚK): Nemandi sem lýkur námi í sjúkraflutningum fær 5 einingar á öðru hæfniþrepi og 5 einingar á þriðja hæfniþrepi. Nemandi þarf að skila inn staðfestingu frá Sjúkraflutningaskólanum

Iðnnám í matvælagreinum: Nemandi sem lýkur samningsbundnu námi í matvælagreinum (bakstri, framreiðslu, kjötiðn eða matreiðslu) fær nám sitt að fullu metið í frjálst val á matvælabraut til stúdentsprófs.

Um námsmat sjá áfangastjórar og námsstjóri.

Síðast uppfært 22. mars 2024