NMK - Nemendafélag Menntaskólans í Kópavogi

NMK er nemendafélag skólans og er myndað af stjórn, skemmtinefnd, ísvélinni (myndbandsnefnd), tyllidaganefnd, íþróttanefnd, jafnréttisnefnd, tækninefnd, nördanefnd og fleiri nefndum.

Tekið er vel á móti nýnemum í MK.

Nýnemadagur er í upphafi skólaárs þegar nýnemar fara í dagsferð sem nemendafélagið skipuleggur. Í nýnemaferðinni geta nýnemar boðið sig fram í allar nefndir nemendafélagsins, þannig að nýnemar geta strax tekið þátt í að skipuleggja félagslífið – m.a. er fulltrúi nýnema alltaf í stjórn.

Í MK eru allir með og mikil áhersla er lögð á að virkja nemendur til þátttöku í félagslífi skólans.

Tyllidagar eru þemadagar í MK þar sem hefðbundið skólastarf er brotið upp og skólinn skreyttur. Líf, fjör, söngur og skemmtun einkennir Tyllidagana.

Böll eru reglulega haldin yfir skólaárið. Aðalball haustannar er nýnemaballið sem haldið er upphafi annar. Á vorönn er árshátíðin hápunktur hennar. Árshátíðin er stór viðburður í skólanum þar sem nemendur og starfsfólk skólans skemmta sér saman. Útskriftarnemar í matvælagreinum sjá um glæsilega þriggja rétta máltíð fyrir árshátíðargesti og ýmis konar skemmtiatriði eru í boði.

Urpið er söngkeppni NMK en sigurvegari hennar tekur þátt í Söngkeppni framhaldsskólanna. 

Reglulega eru haldnir allskonar minni viðburðir yfir önnina til að brjóta upp hversdaginn, bæði í frímínútum og á kvöldin.

Íþróttanefnd skólans stendur fyrir fjölbreyttum íþróttamótum. Þekktasta keppnin er MK -deildin þar sem hópar innan skólans keppa í fótbolta.

Gettu betur hópurinn hjá okkur er fjölmennari en bara liðið. Þar koma þeir nemendur saman sem hafa áhuga á spurningarkeppnum og æfa sig. Úr þeim hópi er liðið svo valið.

Nördanefndin starfrækir Dungeons & Dragons hóp, sem hittist einu sinni í viku og spilar D&D.

Leikfélagið setur reglulega upp leiksýningar, en meðal sýninga sem leikfélagið hefur sett upp eru Hairspray, Litla hryllingsbúðin og DNA.

Ef þarna er ekki eitthvað við þitt hæfi – þá bara græjum við það! Á hverju ári verða til nýir klúbbar, hópar og viðburðir en allt veltur þetta á frumkvæði og hugmyndaauðgi nemenda. Í gegnum tíðina hafa verið starfræktir viðburðir og klúbbar eins og rafíþróttahópur, ostakvöld, spilakvöld og andvökunótt.

Síðast uppfært 09. apríl 2024