Fjölbreytt félagslíf í MK

NMK er nemendafélag skólans og er myndað af stjórn, skemmtinefnd, ísvélinni (myndbandsnefnd), tyllidaganefnd, íþróttanefnd, jafnréttisnefnd, tækninefnd, nördanefnd og fleiri nefndum.

Tekið er vel á móti nýnemum í MK.

Simbun er nýnemamóttaka sem fer fram í skólanum. Í framhaldi Simbunar, sem fer fram fyrir hádegi, er farið í nýnemaferð og gist fram á næsta dag.  Í nýnemaferðinni geta nýnemar boðið sig fram í allar nefndir nemendafélagsins, þannig að nýnemar geta strax tekið þátt í að skipuleggja félagslífið – m.a. er fulltrúi nýnema alltaf í stjórn.

Í MK eru allir með og mikil áhersla er lögð á að virkja nemendur til þátttöku í félagslífi skólans.

Tyllidagar eru þemadagar í MK þar sem hefðbundið skólastarf er brotið upp og skólinn skreyttur.  Líf, fjör, söngur og skemmtun einkennir Tyllidagana.

Árshátíðin er stór viðburður í skólanum þar sem nemendur og starfsfólk skólans skemmta sér saman. Útskriftarnemar í matvælagreinum elda glæsilega þríréttaða máltíð fyrir árshátíðargesti og ýmis konar skemmtiatriði eru í boði.

Að jafnaði eru haldin fjögur böll yfir skólaárið: nýnemaball, tyllidagaball, myrkramessa og árshátíðarball. 

Urpið er söngkeppni NMK en sigurvegari hennar tekur þátt í Söngkeppni framhaldsskólanna. Síðustu árin hefur keppnin verið haldin í samvinnu við FG. Skapar það mikla og skemmtilega stemmingu að halda undankeppnina með öðrum skóla.

Nýjasti viðburðurinn er andvökunótt en þar koma nemendur saman í skólanum og skemmta sér heila nótt. Á síðustu andvökunótt var m.a. í boði silent diskó, karókí, borðtennis og fleira.

Reglulega eru haldnir allskonar minni viðburðir yfir önnina til að brjóta upp hversdaginn, bæði í frímínútum og á kvöldin.

MK tók þátt í fyrsta Frísrafíþróttamóti framhaldskólanna 2021, en liðinu gekk mjög vel og fór í undanúrslit keppninnar. Skemmtileg stemmning myndaðist í kringum keppnina og undirbúningur fyrir mótið á næsta ári er þegar hafinn.

Íþróttanefnd skólans stendur fyrir fjölbreyttum íþróttamótum. Þekktasta keppnin er MK -deildin þar sem hópar innan skólans keppa í fótbolta.

Gettu betur hópurinn hjá okkur er fjölmennari en bara liðið. Þar koma þeir nemendur saman sem hafa áhuga á spurningarkeppnum og æfa sig. Úr þeim hópi er liðið svo valið.

Nördanefndin starfrækir Dungeons & Dragons hóp, sem hittist einu sinni í viku og spilar D&D.

Leikfélagið setur reglulega upp leiksýningar, en meðal sýninga sem leikfélagið hefur sett upp eru Hairspray, Fame og Mamma Mia.

Ef þarna er ekki eitthvað við þitt hæfi – þá bara græjum við það! Á hverju ári verða til nýjir klúbbar, hópar og viðburðir en allt veltur þetta á frumkvæði og hugmyndaauðgi nemenda.

Síðast uppfært 26. apríl 2021