Námskrá

Lýsing á námi:
Leiðsögunám miðar að því að undirbúa nemendur undir starf leiðsögumanns ferðamanna á Íslandi. Mikil áhersla er lögð á verklega þjálfun svo að nemendur séu sem best undirbúnir undir fjölbreytt starf leiðsögumanns.

Leiðsögumaður útfærir ferðir og ferðatilhögun í samræmi við dagskrá eða áætlanir ferðaskipuleggjenda. Hann hefur þarfir viðkomandi hóps og markmið að leiðarljósi. Leiðsögumaður skal geta veitt leiðsögn á íslensku og/eða erlendu tungumáli og miðlað upplýsingum um land og þjóð.

Áhersla er lögð á að námið sé í samræmi við Evrópustaðal ÍST EN 15565:2008.

 

Inntökuskilyrði:

Umsækjandi þarf að uppfylla eftirfarandi skilyrði:

Hafa lokið stúdentsprófi eða sambærilegri menntun
Hafa gott vald á íslensku
Hafa gott vald á kjörtungumáli

Umsækjendur eru boðaðir í inntökupróf þar sem fullnægjandi tungumálakunnátta í kjörmáli er staðreynd.

 

Skipulag:

Leiðsögunám er 60 eininga námsbraut á 4. hæfniþrepi. Hefðbundinn námstími er eitt ár í fullu námi en nemendur geta dreift því á tvö ár. Allir nemendur taka sameiginlegan kjarna sem er 35 einingar og samanstendur af 12 áföngum. Að honum loknum velja nemendur sér kjörsvið sem er 25 einingar. Miðað er við að nemendur séu skráðir í að minnsta kosti 8 einingar á önn.

Í upphafi annar er gefið út skóladagatal þar sem skipulag kennslu, prófa og námsferða er tilgreint. Útskrift fer fram árlega að vori.

 

Námsmat:

Námsmat byggir á hefðbundnum lokaprófum, bæði munnlegum og skriflegum, verkefnum og leiðsagnarmati.

 

Reglur um námsframvindu:

Nemendur þurfa að ljúka hverjum áfanga með 7 í lágmarkseinkunn.

 

Áfangalýsingar er hægt að lesa undir flipunum Almenn leiðsögn og gönguleiðsögn

 

Hæfniviðmið:

Að loknu námi skal nemandi hafa hæfni til að:

starfa samkvæmt lögum og reglugerðum er varða störf leiðsögumanna, réttindum neytenda og náttúruvernd.
geta unnið eftir gæða- og öryggisstöðlum ferðaskipuleggjanda, stunda sjálfbæra starfshætti og leggja sig fram um að ferðast án ummerkja á sjálfbæran hátt.
taka frumkvæði þegar nauðsyn ber til, taka sjálfstæðar ákvarðanir og bregðast með faglegum hætti við óvæntum og krefjandi aðstæðum.
lesa og skilja veðurspár, meta áhættur og orsakir slysa í ferðalögum og nýta öryggisvarnir og búnað til að fyrirbyggja óhöpp.
bera ábyrgð á að upplýsa ferðamenn um ferðatilhögun, öryggisatriði og hættur.
geta átt samskipti og tjáð sig á íslensku og/eða ensku skv. B2 skv. Evrópska tungumálarammanum.
Geta leiðsagt á tungumáli á stigi C1 skv. Evrópska tungumálarammanum.
tryggja jákvæða upplifun ferðamanna með góðri þjónustu, ábyrgum og skipulögðum starfsháttum og samskiptafærni.
Viðhalda þekkingu, færni og hæfni sinni með öflun og lestri nýrra gagna.

 

Síðast uppfært 07. júlí 2025