FÉLA3CD05 - Alþjóðasamskipti og hjálparstarf

Í áfanganum verður fjallað um alþjóðasamskipti, hjálparstarf, þróunarsamvinnu og mannréttindi víða um heim. Nemendur kynnast ólíkum tegundum hjálparstarfs og fá að taka þátt í hjálparstarfi innanlands í samvinnu við Rauða krossinn. Fjallað verður um nokkur grunnhugtök og kenningar sem tengjast alþjóðasamskiptum og hjálparstarfi, eins og þróunarlönd, þriðji heimurinn, fátækt, neyðaraðstoð, flóttamannaaðstoð og þróunarsamvinna. Nemendur fá innsýn í mismunandi aðstæður fólks í heiminum og fræðast um orsakir og afleiðingar félagslegrar lagskiptingar og misskiptingar auðs og lífsgæða í heiminum. Jafnframt munu nemendur fræðast um leiðir til úrbóta þannig að allir jarðarbúar geti framfleytt sér á sjálfbæran og umhverfisvænan hátt.  

Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:

  • Helstu grunnhugtökum sem tengjast alþjóðasamskiptum og hjálparstarfi eins og þróun, fátækt, þróunarlönd, þriðji heimurinn og suðrið og hvers vegna hugtökin þykja umdeild.
  • Ólíkum tegundum hjálparstarfs í heiminum eins og flóttamannaaðstoð, neyðaraðstoð og þróunarsamvinnu.
  • Félagslegri lagskiptingu, sjálfbærni og mannréttindum.
  • Verkefnum sem tengjast hjálparstarfi innanlands.

Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:

  • Skoða alþjóðasamskipti og hjálparstarf í sögulegu samhengi og greina áherslubreytingar á undanförnum árum.
  • Afla upplýsinga og fjalla um alþjóðasamskipti og hjálparstarf innan lands og utan á gagnrýnin hátt
  • Skoða umræðu í fjölmiðlum um hjálparstarf og flóttafólk og setja í fræðilegt samhengi.
  • Miðla fræðilegu efni bæði munnlega og skriflega og þjálfa sig í vandaðri heimildaöflun.
  • Taka þátt í hjálparstarfi innanlands á sjálfstæðan og ábyrgan hátt. 

Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:

  • Bera saman hugtök og kenningar um alþjóðasamskipti og hjálparstarf og metið styrkleika þeirra og veikleika.
  • Draga ályktanir um hjálparstarf innan lands og á alþjóðavettvangi og metið réttmæti þess og gæði meðal annars út frá eigin þátttöku og upplýsingaöflun.
  • Átta sig á afleiðingum misskiptingar auðs og lífsgæða í heiminum meðal annars í tengslum við fjölgun flóttamanna og umhverfisvandamál sem snerta okkur öll.
  • Læra að bera virðingu fyrir ólíkum íbúum jarðarinnar og fræðast um mikilvægi þess að nýta sameiginlegar auðlindir okkar á sjálfbæran og umhverfisvænan hátt.

Undanfari: FÉLA2BA05.

Námsmat: Sjá kennsluáætlun.