Skólasókn

LSM-012 byggir á VKL-203 gr. 5.2.

  1. Nemendum ber að sækja allar kennslustundir og mæta stundvíslega.
  1. Nemendur eiga að mæta með námsgögn í tíma og vinna í tímanum samkvæmt fyrirmælum frá kennara. Ef nemandi mætir ekki með námsgögn og hlaðna tölvu eða er óvirkur í kennslustundinni má kennari víkja nemandanum úr tímanum og gefa honum fjarvist. Nemandi sem er fjarverandi lengur en 10 mínútur úr kennslustund fær seint.
  1. Nemendur eiga að mæta í réttum vinnufatnaði skv. áfangalýsingu í verknámi, heimilt er að vísa nemenda úr kennslustund og gefa honum fjarvist fylgi hann ekki þessum fyrirmælum.
  1. Nemanda, sem truflar aðra nemendur og kennara í kennslustund, er vikið úr tíma og fær fjarvist.
  1. Ef fjarvistir nemenda eru fleiri en 10% af heildarskólasókn er heimilt að víkja nemenda úr skólanum.
  1. Áður en nemenda er vikið úr skóla vegna lélegrar skólasóknar skal hann hafa fengið viðvörun í INNU. Endanleg brottvikning úr skóla vegna lélegrar skólasóknar er á ábyrgð skólameistara í samráði við nemendaverndaráð.
  1. Veikindi nemenda yngri en 18 ára skal foreldri/forráðamaður skrá í Innu samdægurs. Einnig er hægt að tilkynna hluta úr degi í gegnum veikindaskráningu í INNU. Nemendur 18 ára og eldri skrá veikindi sjálfir, samdægurs í Innu. Það er EKKI hægt að skrá veikindi afturvirkt. Fari veikindaskráningar nemenda yfir 70 kennslustundir á önn skulu þeir hafa samband við námsráðgjafa og skila læknisvottorði til staðfestingar þrálátum veikindum.
  1. Sé um langvarandi veikindi að ræða eða fjarvistir sökum þráláts sjúkdóms þurfa nemendur að hafa samband við námsráðgjafa. Skila þarf læknisvottorði sem staðfestir veikindin og skal það endurnýjað á hverri önn. Krafist er 50% lágmarksraunmætingar af nemendum í langtímaveikindum. Ef nemandi getur ekki uppfyllt það er mælt með að hann fari í veikindaleyfi. 
  1. Foreldrar/forráðamenn geta sótt um skammtímaleyfi fyrir nemendur undir 18 ára með því að skrá forföll samdægurs í INNU. Nemendur 18 ára og eldri geta sjálfir sótt um skammtímaleyfi. Skammtímaleyfi er veitt fyrir allt frá einum kennslutíma upp í heilan dag. Nauðsynlegt er að skrifa skýringu á forföllum til að fá þau samþykkt. Leyfi eru samþykkt vegna nauðsynlegrar fjarveru sem getur ekki farið fram utan skólatíma (t.d. læknisheimsókn). Skammtímaleyfi gefa nemendum ekki rétt á undanþágu frá prófum eða lengdan skilafrest á verkefnum. Athugið að leyfi eru EKKI skráð aftur í tímann..
  1. Langtímaleyfi eru almennt ekki veitt. Aðstoðarskólameistari annast frávik frá þessari reglu. Bent er á að allar fjarvistir geta haft áhrif á námsárangur nemenda.
  1. Komi nemandi of seint í kennslustund, þ.e. eftir að kennsla er hafin, jafngildir það hálfri fjarvistarstund.  Ef meira en helmingur er liðinn af kennslustund þegar nemandi mætir reiknast það sem full fjarvist. Geri nemandi ekki athugasemd við mætingaskráningu innan við viku telst hún rétt.

Brjóti nemandi reglur skólans fær hann viðvörun. Ítrekuð brot á skólareglum geta leitt til brottvísunar. Forráðamönnum ólögráða nemenda er gert viðvart svo þeir geti nýtt andmælarétt sinn, sbr. VNL-205.

 
Síðast uppfært 13. október 2022