Námið

Markmið leiðsögunáms er að búa nemendur undir að fylgja ferðamönnum um landið. Námið byggir á nýrri námskrá fyrir leiðsögunám sem samþykkt  var í júní 2025 af Mennta- og barnamálaráðuneytinu eftir yfirlestur frá Leiðsögn, félagi leiðsögumanna (nú hluti af VR) og Starfsgreinaráði matvæla- veitinga- og ferðaþjónustugreina. 

Leiðsögunám er samtals 60 einingar og reiknast sem fullt nám.  Allir nemendur taka kjarnafög sem eru samtals 35 einingar, meirihluti kjarna er kenndur á haustönn og á vorönn fer fram sérhæfing á kjörsviðum.  Nám á kjörsviði er 25 einingar og felur í sér sérhæfingu á viðkomandi sviði. Kjörsviðin eru tvö; Almenn leiðsögn og Gönguleiðsögn.

Miðað er við að nemendur sem skipta náminu á 2 ár taki að lágmarki 10 einingar á önn.

Kennsla hefst 25. ágúst 2025 og útskrifast þeir nemendur sem lokið hafa bæði kjarna og kjörsviði í maí árið eftir.

Kennt er þrjú kvöld í viku; mánudaga, þriðjudaga og miðvikudaga, frá klukkan 16:40 til 20:40 eða 21:20.  Á hvorri önn eru farnar 6 - 7 vettvangs- og æfingaferðir, þessar ferðir eru oftast á laugardögum.

Námsmat byggir á skriflegum og/eða munnlegum verkefnum og prófum. Nemendur þurfa að fá a.m.k. sjö af tíu í einkunn í öllum fögum. Gert er ráð fyrir að nemendur mæti í allar vettvangs- og æfingaferðir.

Lýsing á námi skv. námskrá:
Leiðsögunám miðar að því að undirbúa nemendur undir starf leiðsögumanns ferðamanna á Íslandi. Mikil áhersla er lögð á verklega þjálfun svo að nemendur séu sem best undirbúnir undir fjölbreytt starf leiðsögumanns.

Leiðsögumaður útfærir ferðir og ferðatilhögun í samræmi við dagskrá eða áætlanir ferðaskipuleggjenda. Hann hefur þarfir viðkomandi hóps og markmið að leiðarljósi. Leiðsögumaður skal geta veitt leiðsögn á íslensku og/eða erlendu tungumáli og miðlað upplýsingum um land og þjóð.

Áhersla er lögð á að námið sé í samræmi við Evrópustaðal ÍST EN 15565:2008.

Síðast uppfært 02. júlí 2025