MK brautskráði 190 nemendur

Útskrift Menntaskólans í Kópavogi fór fram við hátíðlega athöfn í Digraneskirkju. Föstudaginn 24. maí brautskráðust 34 leiðsögumenn, 20 matsveinar og 31 iðnmeistari. Laugardaginn 25. maí voru brautskráðir 68 stúdentar (þar af 33 af afreksíþróttasviði), 33 iðnnemar og tveir iðnstúdentar. Auk þess brautskráðust tveir nemar af starfsbraut fyrir einhverfa nemendur miðvikudaginn 22. maí Alls brautskráðust því frá Menntaskólanum í Kópavogi 190 nemar.

Líf og fjör í MK

Skólaárið einkenndist af mikilli gleði. Haldið var upp á 50 ára afmæli skólans með pompi og prakt í september, nemendur fóru í námsferð til Danmerkur og í söguferð til Póllands á slóðir helfararinnar. Gettu betur liðið okkar komst í aðra umferð, Tyllidagar og íþróttavika voru haldin og Viktoría Björt Jóhannsdóttir tók þátt í söngkeppni framhaldsskólanna. Leikfélag NMK setti á svið leikritið DNA og forseti Íslands herra Guðni Th. Jóhannesson heiðraði skólann með nærveru sinni á frumsýningunni.

Færri komust að en vildu

Metaðsókn var í skólann fyrir skólaárið 2023-2024. Það er ánægjulegt að sjá hversu margir vilja stunda nám við skólann en því miður þurfti að vísa mörgum góðum nemendum frá. Sú nýbreytni verður tekin upp í innritun fyrir skólaárið 2024-2025 að tvöfalt vægi verður á einkunnum í íslensku og stærðfræði.

Hæfileikaríkir nemendur

Nemendur Hótel- og matvælaskólans í MK tóku þátt í ýmsum keppnum erlendis. Fjórir iðnnemar tóku þátt í Evrópukeppni iðn-, verk- og tæknigreina sem haldin var í Gdansk. Finnur Guðberg Ívarsson Prigge, bakaranemi og Hinrik Örn Halldórsson, matreiðslunemi fengu viðurkenningu fyrir framúrskarandi árangur. Framreiðslunemarnir Elvar Halldór Hróar Sigurðsson og Daníel Árni Sverrisson hrepptu þriðja sætið í norrænu nemakeppninni. Auk þess lentu bakaranemar í öðru sæti á norðurlandameistaramóti bakara, Nordic Cup, og er það besti árangur sem náðst hefur frá upphafi.

Afreksíþróttafólkið okkar lét heldur betur til sín taka. Erika Nótt Einarsdóttir varð fyrsti Íslendingurinn til að verða Norðurlandameistari í hnefaleikum. Júlía Sylvía Gunnarsdóttir varð fyrsti Íslendingurinn sem vinnur alþjóðlegt mót í skautaíþróttum. Þórbergur Ernir Hlynsson varð Norðurlandameistari í sínum flokki í kraftlyftingum og nýlega tryggði hann sér þátttökurétt á EM í kraftlyftingum. Þá hlaut Tindur Eliasen bronsverðlaun í sínum aldursflokki á crossfit móti í Miami en auk þess vann Tindur sér þátttökurétt í Norrænu stærðfræðikeppninni og hann vann sér einnig rétt til að taka þátt í úrslitakeppninni í eðlisfræði.

Vellíðan nemenda og starfsþróun kennara

Almennt líður nemendum vel í MK. Ýmsar rannsóknir hafa sýnt að lykillinn að góðum námsárangri er vellíðan nemenda. Þetta skiptir okkur í MK miklu máli. Hlutverk stjórnenda er m.a. að skapa rými til þess að öflug og stöðug starfsþróun geti átt sér stað í skólastarfinu. Á þessu skólaári hafa kennarar haft rými í stundatöflu fyrir þróun kennsluhátta, faglegt og þverfaglegt samstarf sem hefur skilað sér í bættum námsárangri nemenda.

Góður námsárangur

Guðríður Hrund, skólameistari, afhenti útskriftarnemum viðurkenningar úr Viðurkenningarsjóði MK sem stofnaður var af bæjarstjórn Kópavogs á 20 ára afmæli skólans árið 1993. Þrír nemar hlutu viðurkenningu að þessu sinni: Nýstúdentarnir: Alfa Brá Oddsdóttir Hagalín og Rebekka Sif Rúnarsdóttir en þær fengu báðar meðaleinkunnina 9,85 á stúdentsprófi og nýútskrifaður bakari, Finnur Guðberg Ívarsson Prigge fyrir hæstu meðaleinkunn í verknámi.

Rótarýstyrkir

Rótarýklúbbur Kópavogs veiti nýstúdentunum Ölfu Brá Oddsdóttur Hagalín og Rebekku Sif Rúnarsdóttur viðurkenningu fyrir góðan námsárangur í raungreinum.

Rótarýklúbburinn Borgir veitti nýútskrifuðum bakara, Matthildi Ósk Guðbjörnsdóttur viðurkenningu fyrir góðan námsárangur í sérgreinum verknáms.

Rótarýklúbburinn Þinghóll veitti nýstúdent Valdísi Önnu Valdimarsdóttur viðurkenningu fyrir góðan námsárangur í félagsgreinum.

Starfsfólk Menntaskólans í Kópavogi óskar útskrifuðum nemendum skólans og fjölskyldum þeirra hjartanlega til hamingju með daginn. Megi gæfan fylgja ykkur í lífi og starfi.