Alþjóðlegu samvinnuverkefni lokið

Þann 3. maí tókst okkur, raungreinakennurum og nemendum í valáfanganum Orka að ljúka alþjóðlegu samvinnuverkefni sem heitir M4E3. Verkefnið er unnið í samvinnu við fjölbrautaskólann í Numedal í Noregi og menntaskólann í Teplice í Tékklandi. Í verkefninu er lögð áhersla á að nemendur frá MK kynnist nemendum frá Tékklandi, menningu og auðlindum og að tékkneskir nemendur kynnist íslenskri menningu, náttúru og auðlindum. Samskiptin fóru fram á netinu í gegnum TEAMS og var verkefnið styrkt af sjóðnum Iceland, Lichterstein and Norway grants og DZS (DZ Education).

Upphaflega hófst þetta samvinnuverkefni á vorönn 2020 og þá unnu 13 nemendur í MK með 16 nemendum í Tékklandi áfanga sem nefndist Orka. Var hann þriggja eininga  með áherslu á orkuvinnslu og mat á umhverfisáhrifum hennar og sjálfbærri orkuvinnslu í þessum tveimur löndum og var búið að skipuleggja gagnkvæmar heimsóknir í því skyni. Þegar tékknesku nemendurnir áttu að koma til Íslands eftir miðjan mars var skólanum lokað vegna Covid heimsfaraldursins. Allri vinnu var því frestað þar til á þessarri önn og samskiptin milli hópanna voru þá eingöngu á netinu. 

Í áfanganum var lögð áhersla á að nemendur notuðu ensku við ýmsar aðstæður og var enska samskiptamál nemendanna. Þeir unnu ýmis verkefni og kynningar um áhugasvið, land sitt og menningu, orku og sjálfbæra orkuvinnslu. Einnig gerðu þeir orðalista með íslenskum, enskum og tékkneskum orðum sem tengjast orku og sömdu spurningakeppni um orkuframleiðslu í löndunum tveimur. Nemendur MK stóðu sig mjög vel í þessum rafrænu samskiptum og voru skólanum til mikils sóma. Áfanginn gaf eina einingu en á vorönn 2022 gefst nemendum MK tækifæri til að taka þátt í nýju og spennandi verkefni SEMES.

Í SEMES verður lögð áhersla á að nemendur kynnist jafnöldrum frá öðrum löndum, siðum og menningu þeirra og munu íslensku og norsku nemendurnir heimsækja Tékkland og þeir tékknesku koma hingað og annar hópur frá tékkneska skólanum fara til Noregs. Nemendur MK kynna landið, menningu og auðlindir og fá svipaða kynningu frá nemendum í hinum löndunum. Farið verður í heimsóknir á markverða staði en jafnframt er lögð áhersla á að nemendur heimsæki orkuver (vatnsorku-, jarðhita-, kjarnorku-, brúnkola-, sólar- og vindorkuver) og fræðist um orkuvinnsluna jafnframt því að kynnast umhverfisáhrifum þeirra. Nemendur greiða engan kostnað af ferðalögum því áfanginn er styrktur af Iceland, Lichterstein and Norway grants og DZS (DZ Education). Áfanginn verður þriggja eininga.