Alþjóðlegur forvarnardagur sjálfsvíga

Í dag, 10.september er alþjóðlegur forvarnardagur sjálfsvíga.

Á heimsvísu eru sjálfsvíg meðal 20 algengustu dánarorsaka, en um 800.000 einstaklinga deyja árlega í sjálfsvígi. Á síðastliðnum áratug hefur árlegur fjöldi sjálfsvíga á Íslandi verið á bilinu 27-49, eða að meðaltali 39 á ári. Eftir áralangar rannsóknir og forvarnarstarf þá komumst við nær því að skilja betur áhættuþætti sjálfsvíga. Það sem gerir forvarnarstarf sjálfsvíga hins vegar flókið er að áhættuþættirnir eru margir og eru samspil líkamlegra, umhverfis- og félagslegra þátta. Bakgrunnur og orsakaferli á bak við hvert sjálfsvíg er mismunandi rétt eins og saga hvers einstaklings er einstök á sinn hátt. Þess vegna er öflugasta leiðin í forvarnarstarfi gegn sjálfsvígum talin vera fjölbreytt og skilvirk samvinna lykilaðila; stofnana, félagasamtaka, stjórnvalda og einstaklinga að sameiginlegu markmiði okkar allra. Þess vegna er þema alþjóðlega forvarnardags sjálfsvíga þriðja árið í röð „Stöndum saman gegn sjálfsvígum“.

Embætti landlæknis og Rannsókn og greining gaf út skýrslu árið 2018 um niðurstöður kannana í framhaldsskólum frá 2000 til 2016, um tíðni sjálfsvígshugsana og sjálfsvígstilrauna meðal íslenskra ungmenna. Í þeirri skýrslu kom meðal annars í ljós að árið 2016 höfðu ein af hverjum þremur stúlkum (33%) í framhaldsskólum í alvöru hugleitt sjálfsvíg og tæplega einn af hverjum fjórum drengjum (23%).  Það skiptir máli að grípa einstaklinga sem líður illa snemma og beina þeim á fyrsta skrefið í hjálpinni. Í tilefni 10.september gefur embætti landlæknis út meðfylgjandi plakat með upplýsingum um hvert hægt sé að leita strax þegar einstaklingi líður illa. Við munum senda þessi plaköt til allra framhaldsskóla á næstu dögum.  

Félagslegur stuðningur frá nánasta umhverfi einstaklings getur skipt sköpum í sjálfsvígsforvörnum. Á álagstímum eins og við upplifum í heimsfaraldri skiptir sérstaklega miklu máli að standa saman. Sem fjölskyldumeðlimur, vinur, kennari eða samstarfsfélagi getum við öll haft áhrif með því að staldra við og fylgjast með líðan okkar og líðan fólksins í kringum okkur. Það er í lagi að spyrja út í sjálfsvígshugsanir og það er í lagi  að tala um þær. Það getur hjálpað einstaklingi í vanlíðan að finna að einhver er til staðar til að hlusta og sýna skilning. 

Við gefum í dag einnig út tvo einblöðunga; annars vegar fyrir þann sem gæti liðið illa og hins vegar fyrir þann sem gæti þekkt einhvern sem er að íhuga sjálfsvíg. Þar er minnt á úrræði eins og Hjálparsíma Rauða krossins 1717, Píetasímann 552-2218 og netspjall við hjúkrunarfræðing á heilsuvera.is. Það er  hjálp til staðar og það er alltaf von. Ykkur er velkomið að birta meðfylgjandi einblöðunga á ykkar heimasíðu eða prenta út og hengja upp í ykkar skóla.

Þessar upplýsingar má finna á https://www.landlaeknir.is/heilsa-og-lidan/sjalfsvigsforvarnir/ og einnig má senda fyrirspurnir á hildurg@landlaeknir.is