Brautskráning Haust 2022

Frá vinstri: Sigríður Hulda Jónsdóttir, Darri Hilmarsson og Kacper Julian Ziolkowski
Frá vinstri: Sigríður Hulda Jónsdóttir, Darri Hilmarsson og Kacper Julian Ziolkowski

Brautskráning haustannar fór fram þann 20. desember en þá útskrifuðust 54 nemendur frá skólanum, 23 á bóknámsbrautum og 31 úr verknámi.  

Viðurkenningu úr viðurkenningarsjóði MK hlutu í þetta sinn:

Darri Hilmarsson sem var hæstur á lokaprófi í matreiðslu

og

Kacper Julian Ziolkowski sem var með hæsta meðaleinkunn á stúdentsprófi.

Sigrún Hulda Jónsdóttir forseti bæjarstjórnar Kópavogs afhenti þeim peningaverðlaun úr sjóðnum.  

 Juan M Aguirre De Los Santos var með hæsta meðaleinkunn í sérgreinum verknáms og fékk viðurkenningu frá Rótarýklúbbnum Borgum hérna í Kópavogi.

Skólameistari fór yfir í sinni ræðu að það vantaði fleiri vinnandi hendur upp á dekk í ferðaþjónustunni og það væri tilfinnanlegur skortur á menntuðu fólki í matvælagreinum og framreiðslu. Þetta væru spennandi vel launuð störf með fjölbreytt atvinnutækifæri.  Fagmennska í ferðaþjónustu væri lykilatriði, því erlendir gestir vilja ekki bara njóta fegurðar landsins, þau vilja ekki síður gott atlæti og faglegar móttökur.

„Það er margt sem heillar við Ísland. Ósnortin náttúran, fossarnir, gljúfrin og auðvitað norðurljósin.  Þrátt fyrir það vill fólk meira en bara líta fegurð landsins. Það vill góðan aðbúnað. Mat, gistingu og góða þjónustu.

Okkur vantar fleiri vinnandi hendur upp á dekk. Það vantar tilfinnanlega fagfólk í öllum greinum ferðaþjónustunnar og þá ekki síst í veitingageiranum. Við verðum að tryggja fagmennsku í þessum greinum, tryggja það að þau sem taka á móti erlendum gestum séu fagfólk fram í fingurgóma. Það er ekki nóg að fá góðan mat á veitingastað ef þjónustan er slök.  Það er engin glóra í því að ferðast um landið án traustrar og góðrar leiðsagnar. 

Þessar mikilvægustu þjónustugreinar okkar Íslendinga hafa átt undir högg að sækja. Það er sótt að fagmennskunni með ófaglærðu fólki í leiðsögn og þjónustu. Góður matur er fín byrjun á góðu kvöldi, en það er þjónustan sem skapar umgjörðina, heildina og upplifunina. Það er nóg pláss hér í MK fyrir fleiri kokka, þjóna, bakara og svo ég tali nú ekki um kjötiðnaðarmenn. Þetta eru spennandi störf með endalausum tækifærum.“