Hugleiðing frá skólameistara MK

Nú eru tvær vikur liðnar frá skólalokun og ein eftir. Með miklu stolti langar mig til að hrósa kennurum og nemendum Menntaskólans í Kópavogi fyrir dugnað og elju það sem af er. Af jákvæðni og bjartsýni hafið þið nálgast þetta óvenjulega verkefni, að vinna heima.

Það hefur sýnt sig að innviðir Menntaskólans í Kópavogi eru traustir og kemur sér vel að hafa lagt þetta mikla áherslu á tölvunotkun og upplýsingatækni í skólastarfinu. Í flestum tilfellum hefur gengið ótrúlega vel að skipta nánast á einni nóttu úr staðnámi í fjarnám. Verkefni sem við fengum í hendur með litlum fyrirvara, verkefni sem við sjáum enn ekki fyrir endann á.

Æðruleysi er eiginleiki sem gott er að temja sér þegar lífið færir okkur mismunandi flókin verkefni í hendur. Æðruleysi er að taka því sem að höndum ber án þess að reiðast, verða pirraður eða bitur. Með æðruleysi vera brekkurnar svo miklu auðveldari uppgöngu.

Mér finnst þið öll hafa sýnt æðruleysi gagnvart þessu mikilvæga og sérstaka verkefni sem við sem þjóð fengum í hendur. Saman ætlum við að lágmarka þann skaða sem kórónaveiran hefur mögulega á líf, heilsu og framtíð okkar allra.  Það ætlum við að gera með því að fylgja góðra manna ráðum og halda áfram inn í framtíðina.

Og fyrir ykkur nemendur góðir er svo óendanlega mikilvægt að stunda námið af kappi. Nú þegar páskaleyfið er handan við hornið er gott að bretta upp ermar og fara „skuldlaus“ inn í páskana. 

Hrein samviska er nefnilega frábært veganesti inn í þessa skrítnu páska sem við eigum í vændum.

En þótt stefnt hafi verið í upphafi að því að við kæmum saman að loknu páskaleyfi er ekki á vísan að róa hvað það varðar. Hvað verður ræðst af ákvörðun almannavarna og sóttvarnalæknis, við getum alveg eins haft bak við eyrað að áframhaldandi fjarvinna taki við að loknu páskaleyfi.

En það skulum við geyma bak við eyrað enn sem komið er og ekki velta um of vöngum yfir því. Við skulum bara einbeita okkur að því að hugsa um þessa síðustu kennsluviku fyrir páska og setja alla okkar orku í námið með það fyrir augum að ganga bjartsýn inn í páskana með hreina samvisku.  Þá getum við tekið því sem að höndum ber að loknu páskafríi, mögulega með nýtt plan í farteskinu.

Og munið elsku dúllurnar mínar að það standa margir við bakið á ykkur og vilja allt fyrir ykkur gera. Við hérna í bakvarðarsveit Menntaskólans í Kópavogi erum hér fyrir ykkur. Skrifstofan er áfram opin, þangað getið þið hringt og fengið leiðbeiningar ef á þarf að halda og náms- og starfsráðgjafar skólans eru við símann milli 10 og 15 alla daga.

Ég hef verið spurð um skólalok. Svar mitt er einfaldlega þetta: Það verða skólalok. Þið ykkar sem eruð að útskrifast munuð gera það. Við munum finna leið til að klára önnina með sóma og öll stefnum við að því að þið komist skaðlaust út úr þessum aðstæðum. Það þýðir auðvitað að þið þurfið að stunda námið af kappi áfram, skila verkefnum og taka próf eins og áður, á því er enginn afsláttur en við munum aðstoða ykkur eins og við frekast getum J.

Kveðja
Guðríður Eldey Arnardóttir
skólameistari MK