Öll aðsóknarmet slegin og færri komust að en vildu

Innritun nýnema fyrir haustið 2024 er lokið og bjóðum við nýja nemendur hjartanlega velkomna í skólann. Innritunarbréf verður sent í pósti í vikunni og greiðsluseðill fyrir skólagjöldum haustannar birtist í heimabanka forráðamanna á næstu dögum.

Að þessu sinni sóttu tæplega 700 nemendur fæddir 2008, um MK í fyrsta eða öðru vali. Teknir voru inn 264 nýnemar, 189 innrituðust á stúdentsbrautir, 39 nemendur í grunnnám matvæla- og ferðagreina og 36 nemendur á framhaldsskólabrú. Af 264 nýnemum voru 98 nemendur innritaðir á afrekssvið skólans.

Við úrvinnslu umsókna er unnið eftir verklagsreglum um inntöku nýnema. Umsækjendur sem ekki fengu samþykkta skólavist geta skráð sig á biðlista hér og haft verður samband við viðkomandi í ágúst ef pláss losnar og hægt er að veita skólavist.