Orkuáfanginn fékk viðurkenningu frá Tékklandi

DZS (House of Foreign Cooperation) er menntastofnun í Tékklandi um erlent samstarf í menntamálum sem starfar í Prag. Árlega velur stofnunin 36 verkefni í sjö flokkum til að keppa um besta samstarfsverkefnið. Verkefnið M4E3 – Mobillity for Education about Energy and Ecology var samstarfsverkefni milli framhaldsskólanna Menntaskólans í Kópavogi, Menntaskólans í Teplice í Norður-Bæheimi og framhaldsskólans Nore í Noregi. Þetta verkefni var valið sem eitt af sex bestu verkefnunum í flokknum Sveigjanleiki og nýsköpun. Þetta var eina verkefnið sem styrkt var af Uppbyggingarsjóði EES og Noregs sem komst í úrslit þetta árið.

Forstjóri DZS Michal Uhl og menntamálaráðherra Tékklands Valdimír Balas kynntu bestu verkefnin. Okkar verkefni var ekki valið það besta en árangurinn var hins vegar ánægjulegur og fékk verkefnið mikla umfjöllun og athygli í tékkneskum fjölmiðlum.

Verkefnið fór fram við mjög erfiðar aðstæður vegna Covid – 19 heimsfaraldursins. Samt sem áður tókst að ljúka við verkefnið og uppfylla helstu markmiðum þrátt fyrir að hóparnir gátu ekki hist en verkefnið var unnið gegnum vefmiðla. Í upphafi var ætlunin að nemendur hittust og skoðuðu þá orkugjafa sem eru notaðir í löndunum þremur og kynntu sér mismunandi aðferðir við orkuvinnslu sem eru dæmigerðar fyrir löndin.

Rétt fyrir heimsókn tékkneskra nemenda til Íslands lokuðust landamæri vegna COVID 19 og gátu nemendur aðeins unnið verkefnið rafrænt veturinn 2020 – 2021. Verkefnastjórar verkefnisins gáfust ekki upp og leituðu að tækifærum til að gefa nemendum sínum reynslu í alþjóðlegu samstarfsverkefni. Lausnin var samvinna á netinu. Tveggja vikna dvöl í löndunum varð á endanum að vefnámskeiðum sem stóðu yfir heila önn. 48 nemendur og 10 kennarar tóku þátt í þeim frá öllum þremur löndunum. Saman unnu nemendur ekki aðeins að því að bera saman kosti og galla mismunandi orkugjafa, heldur sóttust þeir einnig eftir gagnkvæmri þekkingu á mismunandi hugmyndum um lausnir á loftslagsvandamálum og mismunandi menningu landanna. Lokaverkefni þeirra voru kynningar gegnum netið á orkuvinnslu og afleiðingum hennar á umhverfið og orkuskipti, en einnig kynntu þeir helstu einkenni landa sinna, menningarlíf og viðburði.

Íslenski verkefnastjórinn var Guðrún Angantýsdóttir en hún ásamt Ingibjörgu Haraldsdóttur og Elínu Guðmannsdóttur sáu um kennslu áfangans.

Ári seinna var kenndur svipaður áfangi í skólunum þremur, en í það sinn gátu nemendur ferðast milli landanna og átt eðlileg samskipti. Voru notaðar svipaðar hugmyndir og í fyrra verkefninu og fóru fram gegnum netið ýmsar kynningar á landi og þjóð, en auk þess skoðuðu þeir helstu lausnir í loftslagsmálum og kynntu sér orkuvinnsluna í hverju landi fyrir sig. Það samstarf var nefnt SEMES (Students Education Mobility about Energy Sources).

Verkefnin voru bæði styrkt af Uppbyggingarsjóði EES og Noregs sem er fjármagnaður af Íslandi, Liechtenstein og Noregi í þeim tilgangi að draga úr félagslegum og efnahagslegum ójöfnuði innan Evrópska efnahagssvæðisins og styrkja tvíhliða samstarf við 15 ESB lönd í Mið- og Suður-Evrópu.