Prófatímabil haustannar hefst

Lokapróf haustannar verða haldin 3. - 9. desember og sjúkrapróf miðvikudaginn 10. desember. Það er mikilvægt að nemendur kynni sér prófareglurnar mjög vel en þær má finna á heimasíðunni. Skrifleg próf eru aðgengileg í lesara (Read Speaker) á Moodle í gegnum LockDown Browser. Nemendur sem vilja nýta sér það þurfa að mæta með tölvu og heyrnartól sem tengjast við tölvuna.

Próftaflan er aðgengileg í INNU og á heimasíðunni. Þar koma fram mikilvægar upplýsingar um fyrirkomulag prófa, sjúkrapróf, forföll og annað sem mikilvægt er að skoða vandlega. Athugið að veikindi og forföll á prófdegi þarf að tilkynna samdægurs með símtali á skrifstofuna. Ekki er hægt að skrá veikindi í gegnum INNU á prófatímabili. Ekki þarf að skila læknisvottorði en skráning í sjúkrapróf kostar 2.000 kr.

Á próftöflunni kemur einnig fram hvaða próf eru rafræn (tölvupróf). Nemendur koma með eigin tölvu í próf og þurfa þær að vera í lagi, fullhlaðnar og með LockDown Browser uppsettan og uppfærðan. Stærðfræðipróf eru leyst á blaði en nemendur mega nota GeoGebra sem hjálpartæki og koma því með tölvu með sér í þau próf. Einnig þarf að koma með skriffæri og vasareikni.

Á borðum nemenda í prófi mega vera skriffæri, strokleður og þau hjálpargögn sem tilgreind eru á forsíðu prófa. Úlpur, símar, snjallúr, pennaveski, töskur og annað sem nemandi má ekki hafa með sér í próf er sett á merkt borð í prófstofu. Við mælum með að nemendur setji verðmæti í skápana sína á meðan á prófi stendur því skólinn tekur ekki ábyrgð á eigum nemenda.

Einkunnir og námsárangur

Lokað er fyrir einkunnir í INNU meðan á prófatíma stendur og opnað aftur eftir síðasta próf. Þeir nemendur sem falla í áfanga fara sjálfkrafa í áfangann aftur, þ.e. ef hann er kenndur á næstu önn. Nemanda er einungis heimilt að sitja sama áfanga þrisvar. Þrífall getur varðað brottvikningu úr skólanum.

Prófsýning verður í skólanum mánudaginn 15. desember frá kl. 11:30 til 12:30. Nemendur eru hvattir til að mæta og skoða sín lokapróf og verkefni. Þar gefst einnig tækifæri til að hitta umsjónarkennara, námsráðgjafa, áfangastjóra eða námsstjóra til að endurskoða val haustannar ef nemendur hafa fallið í áfanga.

Útskrift

Úskrift stúdenta, iðnnema, matsveina og matartækna verður föstudaginn 19. desember kl 14:00 í Digraneskirkju.