Sóun - hvað getum við gert

Nýnemar skólans í áfanganum Læsi, sem er þverfaglegur áfangi á sviði menningar- og náttúrulæsis, tóku þátt í spennandi verkefni. Þeir fóru í vel útbúna stofu Hótel- og matvælaskóla MK og skáru grænmeti sem Krónan lét skólanum í té - grænmeti sem ekki selst ekki lengur í búðinni en er alls ekki ónýtt. Fengu nemendur fræðslu hjá Dóru Svarvarsdóttur og sá svo matvælakennarinn Hinrik Ellertsson um að elda súpuna sem fékk nafnið „Nýtnisúpa“.

Kennarar skólans ræddu við nemendur um hvað við getum gert til þess að minnka sóun og voru viðraðar lausnir og hugmyndir um hvernig nýta má það sem annars er hent í samfélaginu.

Umhverfisnefnd nemenda skipulagði spurningakeppni um loftlagsmál og nemendur og starfsmenn tóku þátt í könnun um umhverfis- og samgöngumál sem skoðar hvernig hópurinn ferðast til og frá skóla.

Umhverfisdögum var svo slitið á formlegan hátt með sameiginlegri lokahátíð síðasta daginn í hádeginu þar sem nemendur og starfsmenn gæddu sér á nýtnisúpunni ásamt hinum klassísku íslensku pyslum.

Í skólanum er lögð áhersla á að auka vitund nemenda með uppákomum þar sem umhverfis- og jafnréttismál koma við sögu með það að markmiði að efla gagnrýna hugsun.