Útskrift

Menntaskólinn í Kópavogi brautskráði 81 nema

Útskrift Menntaskólans í Kópavogi fór fram við hátíðlega athöfn í Digraneskirkju í dag, föstudaginn 19. desember. Þá voru brautskráðir 50 stúdentar af fjórum námsbrautum, einn framreiðslumaður, 18 matreiðslumenn, einn meistari í matvælagreinum, tveir matsveinar og níu matartæknar.

Á 52. starfsári skólans eru nemendur rúmlega 1100 sem stunda nám á 20 mismunandi námsleiðum í bók- og starfsnámi. Mikil aðsókn hefur verið í skólann undanfarin ár og er hann fullsetinn. Það er ánægjulegt að sjá hversu margir vilja stunda nám við skólann en því miður höfum við þurft að vísa mörgum góðum nemendum frá á síðustu árum. Það er erfitt að geta ekki boðið öllum skólavist.

Það er alltaf líf og fjör í MK og margvísleg þróunar- og umbótaverkefni hafa verið í gangi á haustönn. Nýtt og endurbætt bókasafn var opnað í lok september, jafnlaunavottun var endurnýjuð til ársins 2028, ný skólanefnd var skipuð við skólann í nóvember og Guðmundur Ingi Kristinsson, mennta- og barnamálaráðherra kom í heimsókn og kynnti fyrirhugaðar breytingar á framhaldsskólastiginu. Þá settu nemendur í umhverfisfræði upp fataskiptimarkað, jarðfræðinemar fóru í Borgarfjörð og skoðuðu kvikuflæði neðanjarðar, nemendur í fjölmiðlafræði fóru í heimsókn á RÚV, líffræðinemar fóru í fjöruferð og nemendur í íslensku fóru í Njáluferð svo fátt eitt sé nefnt. Þá tóku nemendur í
Hótel- og matvælaskólanum þátt í kökuskreytingakeppni, slowfood viðburði í Grasagarðinum, Arctic circle í Hörpu, Kornax keppni og hópur matreiðslunema tók þátt í verkefni í Noregi. Þá stóðu nemendur einnig fyrir halloweenbakaríi, kjötbúð, grænkeraveislu o.fl.

Afrekssvið skólans hefur laðað að sér marga sterka nemendur. Á sviðinu eru um 370 nemendur sem koma frá 38 íþróttafélögum og stunda 24 ólíkar íþróttagreinar. Markmiðið með afrekssviðinu er að koma til móts við nemendur sem vilja ná árangri bæði í námi og íþróttum.

Hlutverk okkar í MK er m.a. að styðja við ungt og efnilegt íþróttafólk til að auðvelda þeim að stunda nám samhliða íþróttaiðkun. Á þessari önn tóku kennarar og nemendur afrekssviðsins á móti nemendum frá Finnlandi sem voru í skólanum og bjuggu hjá nemendum okkar í viku. Á næstu önn fara nokkrir nemendur af afrekssviðinu til Finnlands í sömu erindagjörðum.

Góður námsárangur

Forseti bæjarstjórnar, Björg Baldursdóttir, afhenti útskriftarnemum viðurkenningar úr Viðurkenningarsjóði MK sem stofnaður var af bæjarstjórn Kópavogs á 20 ára afmæli skólans árið 1993. Tveir nemar hlutu viðurkenningu að þessu sinni: Nýstúdent Jóhann Kári Þorsteinsson og nýútskrifaður matreiðslumaður, Tómas Leó Kristjánsson.

Rótarýklúbbur Kópavogs veitti nýstúdent Karitas Guðrúnu Jóhannsdóttur, viðurkenningu fyrir góðan námsárangur í raungreinum.

Rótarýklúbburinn Borgir veitti nýútskrifuðum matreiðslumanni, Tómasi Leó Kristjánssyni, viðurkenningu fyrir góðan námsárangur í sérgreinum verknáms.

Starfsfólk Menntaskólans í Kópavogi óskar útskrifuðum nemendum skólans og fjölskyldum þeirra hjartanlega til hamingju með daginn. Megi gæfan fylgja ykkur í lífi og starfi.