Vettvangsferð á Þjóðskjalasafn Íslands

Ólafur Arnar Sveinsson fagstjóri fræðslu og rannsókna tók á móti nemendum
Ólafur Arnar Sveinsson fagstjóri fræðslu og rannsókna tók á móti nemendum

Nemendur í samtímasögu fóru í vettvangsferð á Þjóðskjalasafn Íslands nú á miðvikudaginn. Ekki er að neita að vantrú hafi gætt á svip nemenda þegar Stefán Svavarsson sögukennari boðaði þau á Þjóðskjalasafn Íslands. Lofaði hann að heimsóknin yrði áhugaverðari en nafn safnsins gaf til kynna, sem nemendur trúðu svona rétt mátulega.

Hópurinn lét þó tilleiðast og fjölmenntu nemendur á safnið. Ólafur Arnar Sveinsson fagstjóri fræðslu og rannsókna tók á móti nemendum og kennara og eftir stutta kynningu um starfsemi safnsins og mikilvægi þess fyrir sagnfræðirannsóknir fengu nemendur að skoða og handleika nokkur söguleg skjöl úr safnkostinum. Má þar helst nefna:

  • Fundargerðarbók frá þjóðfundinum 1851 þar sem sjá mátti orðin frægu „Vér mótmælum allir“ í stóru letri rithandar Benedikts Gröndal.
  • Dómabók frá 1829 þar sem dauðadómur var kveðinn upp yfir Agnesi Magnúsdóttur og Friðriki Sigurðssyni fyrir morðbrennuna á Illugastöðum. Aftaka þeirra tæpu ári síðar reyndist sú síðasta sem fram fór á Íslandi.
  • Auglýsingu sem breski flugherinn setti upp í Reykjavík í seinni heimsstyrjöld til að fá ungar íslenskar stúlkur á dansleik. Ungmennaeftirlitið hafði rifið auglýsinguna niður og varðveitt sem dæmi um siðspillinguna sem fylgdi samneyti hermanna og íslenskra stúlkna og endaði hún loks á Þjóðskjalasafni.  
  • Skinnbréf frá 16. öld þar sem jörðinni Klifshaga í Öxarfirðir er lýst.

Almenn ánægja var með heimsóknina að henni lokinni og öruggt að áhugi nemenda á frekara sagnfræðinámi minnkaði ekki eftir daginn.

Vjer mótmælum allir Komið á ball Áhugasamir nemendur