Námsmat og einkunnir - Námsframvinda

Námsmat í MK skal alltaf vera skilmerkilega fært í kennsluáætlun og ef gera þarf breytingar á kennslumati eftir að kennsla hefst skal gefa út nýja útgáfu af kennsluáætlun og kynna hana fyrir nemendum ásamt því að senda hana í gæðakerfi skólans. Námsmat byggir á þekkingu, leikni og hæfni nemandans. Námsmatsaðferðir geta verið skriflegar, munnlegar, á rafrænu formi eða verklegar, falið í sér sjálfsmat, jafningjamat, leiðsagnarmat, símat og lokamat.

Skilafrestur á verkefnum

Það er hverjum kennara í sjálfsvald sett hvernig hann hagar skilafrestum verkefna. Þó ber að hafa í huga og ítreka við nemendur að þeir bera ábyrgð á því að hafa samband við kennara ef þeir missa af verkefnaskilum eða prófum vegna veikinda. Nemendur geta almennt ekki unnið upp verkefni eftir að skilafrestur er liðinn.

Miðannarmat

Nemendur fá miðannarmat í hverjum áfanga um það bil á miðri önn.

Einkunnir í miðannarmati eru gefnar í bókstöfum;

A = Ágætt, nemenda gengur ákaflega vel.

B = Í lagi, nemandi hefur tök á efninu en má ekki slá slöku við.

C = Ábótavant, nemandi þarf að taka sig á til að ná áfanganum.

X = Ekki forsendur til að gefa einkunn.

Leiðbeiningar

Skráning einkunna

  1. Lokaeinkunnir
    Skrá einkunnir í Innu:
    Opna áfangann, smella á "Skrá einkunnir" sem er í listanum til vinstri. Smella á "Lokaeinkunn". Fylla út í einkunnalistann fyrir alla nemendur, passa að skilja ekki eftir eyður neins staðar þ.e. allir skráðir nemendur þurfa að fá einkunn. Smella síðan á "Birta einkunnir" og "Vista". Umsögn er ekki gefin með lokaeinkunn.
  2. Einkunnaskali:
    Einkunnir eru gefnar í heilum tölum frá 1-10. Til að standast áfanga og til að hefja nám í næsta áfanga í viðkomandi fagi þarf nemandi að ná lágmarkseinkunninni 5 (4,5 hækkar í 5).
  3. Staðið/Fallið:
    Í áföngum þar sem nemendur fá staðið/fallið er gefið S fyrir staðið og F fyrir fall. Vafaatriði skal bera upp við stjórnendur. Munið að það er mikilvægt að skrá einkunn á alla nemendur, ekki skilja eftir eyður neins staðar. Ef um er að ræða S / F sem lokaeinkunn skal bera það undir áfangastjóra.

Endurtekt á útskriftarönn

Ef fall í einum áfanga kemur í veg fyrir að nemandi geti útskrifast með lokapróf má hann endurtaka námsmat í þeim áfanga. Skólinn innheimtir gjald fyrir endurtekt samkvæmt gjaldskrá.

Nemanda er heimilt að útskrifast með einkunnina 4 í einum áfanga ef um lokaáfanga í fagi eða stakan áfanga er að ræða. Einkunnin 4 gefur ekki einingar og því þarf nemandi að eiga umframeiningar á því þrepi svo hann nái upp í einingafjölda til útskriftar.

Prófúrlausnir og símatsgögn

Eftir prófsýningu skila kennarar prófúrlausnum lokaprófa til skrifstofustjóra. Niðurstöður símatsþátta og/eða umsagnir skal kennari varðveita í eitt ár.

Útprentað excel skjal með yfirliti allra námsmatsþátta og útreikningi á lokaeinkunn, svo og einkunnayfirliti (úr INNU) skal skila undirrituðu til skrifstofu í lok annar.

Síðast uppfært 09. nóvember 2022