STE-003 Hlutverk MK

Þekking – þroski - þróun - þátttaka

Menntaskólinn í Kópavogi starfar samkvæmt lögum nr. 92/2008 um framhaldsskóla undir yfirstjórn menntamálaráðherra. Skipulag yfirstjórnar skólans skv. 1. grein reglugerðar um starfslið og skipulag framhaldsskóla nr. 1100/2007 er skilgreint í skipuriti skólans og skólasamningi menntamálaráðuneytis og Menntaskólans í Kópavogi.

Hlutverk skólans er kennsla til stúdentsprófs á bóknámsbrautum, kennsla á iðn- og verknámsbrautum, einkum í matvælagreinum, og kennsla ferðamálagreina í dagskóla og kvöldskóla, allt með áfanga- og fjölbrautasniði.

Skólinn stuðlar að alhliða þroska nemenda og menntun í samræmi við 2. gr. laga nr. 92/2008 um framhaldsskóla.

Í skólastarfinu skal búa nemendur undir störf og frekara nám, efla færni þeirra í íslensku máli, auka með þeim ábyrgðarkennd og víðsýni, frumkvæði, sjálfstraust og umburðarlyndi, þjálfa þá í öguðum vinnubrögðum, jafnrétti og gagnrýninni hugsun, kenna þeim að njóta menningarlegra verðmæta og hvetja þá til stöðugrar þekkingarleitar. Allt starf skólans endurspeglar hina sex grunnþætti náms; læsi, sjálfbærni, heilbrigði og velferð, lýðræði og mannréttindi, jafnrétti, sköpun.

Í skólanámskrá mótar skólinn stefnu sína og markmið skólastarfsins, skipulag skólans og reglur, námsbrautir og áfangalýsingar.

Síðast uppfært 12. mars 2024