STE-008 Gæðastefna

Stefna Menntaskólans í Kópavogi í gæðamálum

Samkvæmt lögum um framhaldsskóla nr. 92/2008 kafla VII mat og eftirlit með gæðum eiga framhaldsskólar að meta með kerfisbundnum hætti árangur og gæði skólastarfs með virkri þátttöku starfsmanna, nemenda og foreldra eftir því sem við á. Menntamálaráðuneytið gerir áætlun til þriggja ára um kannanir og úttektir sem miða að því að veita upplýsingar um framkvæmd framhaldsskólalaga, aðalnámskrár framhaldsskóla og annarra þátta skólastarfs. Ytri úttekt á framhaldsskóla skal fara fram eigi sjaldnar en á fimm ára fresti og unnin af óháðum aðilum.

Skv. 40 grein laga eru markmið mats og eftirlits með gæðum starfs í framhaldsskólum að:

  • veita upplýsingar um skólastarf, árangur þess og þróun til fræðsluyfirvalda, starfsfólks framhaldsskóla, viðtökuskóla, atvinnulífs, foreldra og nemenda,
  • tryggja að starfsemi skóla sé í samræmi við ákvæði laga, reglugerða og aðalnámskrár framhaldsskóla,
  • auka gæði náms og skólastarfs og stuðla að umbótum,
  • tryggja að réttindi nemenda séu virt og að þeir fái þá þjónustu sem þeir eiga rétt á samkvæmt lögum

 

Í Menntaskólanum í Kópavogi er lögð áhersla á þekkingu, þroska, þróun og þátttöku í allri starfsemi skólans með hag nemenda og starfsmanna að leiðarljósi.

Til þess að stuðla sem best að því að markmið laga um mat og eftirlit með gæðum skólastarfs náist hafa verið innleidd gæðakerfi í MK, starfandi er gæðaráð og gæðastjóri sem ber ábyrgð á þeim umbótaverkefnum sem í gangi eru hverju sinni.

Gæðaráð

Gæðaráð samanstendur af stjórnendum og gæðastjóra. Meðal verkefna gæðaráðs er að sjá til þess að skólastarfinu sé sett stefna og unnið sé eftir verkferlum gæðakerfa.

 

Gæðastjóri

Við skólann starfar gæðastjóri sjá starfslýsingu STL-008 sem sér um innleiðingu, skipulag, framkvæmd og skjalfestingu í gæðahandbók skólans og viðhald gæðakerfa skólans. Hann skipuleggur innra eftirlit og ytri úttektir og veitir upplýsingar um kerfin.

 

Gæðakerfi Menntaskólans í Kópavogi

MK styðst við tvö mismunandi gæðakerfi. Annars vegar GÁMES gæðakerfi fyrir hótel- og matvælasvið skólans og hinsvegar ISO 9001 gæðakerfi fyrir alla almenna starfsemi MK og kennslu í dagskóla. Farið hefur fram grunnfræðsla innan skólans um gæðastjórnun og gæðaeftirlit og leitast er við að tengja gæðavinnu og innra mat skólans.

 

Handbækur

Innan skólans eru notaðar gæðahandbækur annars vegar gæðahandbók ISO 9001 kerfisins sem vistuð er á rafrænu formi á innra neti skólans og gæðahandbók GÁMES-kerfisins.

Síðast uppfært 12. mars 2024