STE-011 Menntastefna

Menntaskólinn í Kópavogi var stofnaður 1973 og er skóli bóklegra og verklegra mennta. Gildi skólans eru þekking, þroski, þróun, þátttaka og allt nám og starf í MK skal taka mið af því. Mikilvægt er að hverjum nemanda verði komið til aukins þroska og honum leiðbeint til skilnings og hæfni. Það er yfirlýst markmið að skólinn haldi forystu sinni varðandi þróun í upplýsingatækni, árangursríkum kennsluháttum og gæðamálum. Kennsla í MK miði alltaf að því að nemandi sé virkur þátttakandi í náminu og að tekið sé mið af sex grunnþáttum menntastefnu aðalnámskrár framhaldsskóla 2012, þ.e. læsi, sjálfbærni, lýðræði, jafnrétti, sköpun, heilbrigði og velferð.

Markmið MK er að brautskrá nemendur sem geta tekist á við fjölbreytileg viðfangsefni og hafa tamið sér góð vinnubrögð í námi og starfi. Þeir hafi eflt manngildi sitt, beri virðingu hver fyrir öðrum og geti lagt sitt af mörkum til samfélagsins.

Kennarar MK gegni lykilhlutverki í þróun og stefnumótun varðandi inntak og uppbyggingu náms, efli áhuga og metnað nemenda sinna og stuðli að trú þeirra á eigin möguleikum og námsgetu. Kennsluhættir og námsmat sé fjölbreytt og í sífelldri endurskoðun og þróun. Kennarar leggi áherslu á fagmennsku og frumkvæði, gagnrýna hugsun og þrautalausnir í námi og kennslu. Þeir geri kröfur til nemenda um aga, virðingu og ástundun en sýni ávallt sanngirni. Efla skal samskiptahæfileika nemenda, félagsfærni og samstarfsgetu, veita þeim tækifæri til forystu og ábyrgðar og svigrúm til sköpunar með fjölbreyttum viðfangsefnum og margvíslegum miðlum. Kennurum MK ber að stuðla að almennu læsi og lífsleikni, heilbrigði og velferð í víðum skilningi og leiðbeina nemendum til jafnréttis, samfélagsvitundar, umhverfisverndar og sjálfbærni.

Nemendur MK geri alltaf sitt besta og leggi rækt við hæfileika sína. Þeir séu virkir í náminu, læri sjálfstæð vinnubrögð, stundi skólann af alúð og áhuga og axli ábyrgð á námi sínu, framkomu og samskiptum. Nemendur geti aflað sér almennrar menntunar á helstu meginsviðum menningar, umhverfis og samfélags og tileinki sér grunnþætti menntstefnu aðalnámskrár. Þeir læri að taka virkan þátt í samfélaginu, vinna með öðrum, fjalla um álitamál og leysa úr ágreiningi, hugsa á gagnrýninn hátt, útskýra og miðla, horfa til framtíðar og láta gott af sér leiða. Nemendur læri að lifa í anda lýðræðis og jafnréttis, stuðla að eigin heilbrigði og velferð og temji sér virðingu fyrir sjálfum sér og samferðamönnum sínum, náttúru landsins og nánasta umhverfi. Þeir hafi trú á eigin getu og hæfileikum til að beita námshæfni sinni í margvíslegum viðfangsefnum á uppbyggilegan hátt.

Stjórnendur MK hafi skýra framtíðarsýn varðandi starfsemi skólans sem birt er í skólanámskrá og eiga að vera leiðtogar sem hvetja starfsfólk til dáða. Þeir hafi forystu um farsæla, sanngjarna og faglega stjórnun, gagnsæja ákvarðanatöku, jafnræði og góða nýtingu mannauðsins, efli samstöðu og samvinnu starfsmannahópsins og sýni honum umhyggju. Þeir hvetji kennara til ígrundunar og framfara og styðji þá í að ná markmiðum sínum. Stjórnendur séu aðgengilegir, taki nýjum tækifærum opnum örmum og viðhaldi góðum tengslum við nærumhverfi sitt. Þeir stuðli að góðu samstarfi við forráðamenn nemenda með greiðu upplýsingaflæði. Stjórnendur hafi vakandi auga með árangri skólans, frammistöðu nemenda, mælanlegum viðmiðum og haldi gildum skólans hátt á lofti. Þeir leggi ríka áherslu á að efla skólabrag og skólamenningu MK, skapa nemendum og starfsfólki góða vinnuaðstöðu og aðlaðandi umhverfi og stuðla að velferð þeirra í skólanum.

Síðast uppfært 12. mars 2024