Samstarf um menntun framhaldsskólakennara

Menntaskólinn í Kópavogi er einn af samstarfskólum Menntavísindasviðs Háskóla Íslands um menntun framhaldsskólakennara. Samstarfsskólar sjá um vettvangsnám kennaranema sem er 10 ECTS og tekur hver skóli árlega á móti 8–15 kennaranemum sem eru að undirbúa sig undir kennslu í mismunandi námsgreinum. Vettvangsnámið nær yfir bæði vor og haustönn. Kennaranemar sækja vikulega fundi og kynnast fjölbreyttum þáttum í starfsemi skólans. Þannig fá þeir tækifæri til að fylgjast með kennslustundum, mæta á kennarafundi, aðstoða við kennslu og að lokum fá þeir æfingu í að kenna sjálfir undir handleiðslu leiðsagnarkennara sem eru starfandi kennarar við Menntaskólann í Kópavogi. Kennaranemarnir gera verkefni í háskólanum sem eru tengd með markvissum hætti við skólastarf í Menntaskólanum í Kópavogi. Samstarfið er því dýrmætt fyrir kennaranemana, starfsþróun leiðsagnarkennara í Menntaskólanum í Kópavogi og Menntavísindasvið. Sérstakur verkefnisstjóri fer með utanumhald með kennaranemum og er í samstarfi við Menntavísindasvið og verkefnisstjóra í öðrum framhaldsskólum sem einnig sinna þessu hlutverki að veita kennaranemum starfsþjálfun.

Síðast uppfært 02. maí 2019