STE-013 Umhverfis- og loftslagsstefna

GÖNGUM HREINT TIL VERKS!

Menntaskólinn í Kópavogi leitast við í öllu starfi sínu að sinna umbótum í umhverfis- og loftlagsmálum.

Stefna skólans er að stuðla að vistvænum lífsstíl nemenda og starfsfólks, með öflugri og reglulegri fræðslu, með góðu fordæmi þegar litið er til orkunotkunar, stuðla að heilbrigðum lífstíl, úrgangslosun, endurnýtingu, endurvinnslu og öðrum aðgerðum sem draga úr kolefnisspori nemenda og starfsfólks.

Þeirri stefnu mun skólinn framfylgja með eftirfarandi markmiðum:

 • Draga úr losun gróðurhúsalofttegunda (GHL) að lágmarki um 45% fyrir árið 2030 miðað við árið 2019 með því að samtvinna umhverfis- og loftslagsmál við alla aðra starfsemi skólans.
 • Fylgja lögum og reglugerðum varðandi umhverfismál sem tengjast sérsviði skólans.
 • Tryggja að öryggismál innan skólans séu til fyrirmyndar.
 • Fara eftir alþjóðlegum stöðlum ISO 14000 varðandi umhverfismál.
 • Lágmarka neikvæð umhverfisáhrif með sjálfbærni að leiðarljósi.
 • Efla komandi kynslóðir með menntun og fræðslu til nemenda og starfsfólks á sviði umhverfis- og loftslagsmála. Leiðir að markmiðunum:

Innkaup

Við innkaup á vörum skal leitast við að velja þá tegund sem telst ekki skaðleg umhverfinu, þ.e. er umhverfisvæn.

Reynt skal eftir megni að velja vöru sem er merkt með viðurkenndu umhverfismerki, s.s. merki Evrópusambandsins eða norræna umhverfismerkinu (Svaninum), eða sambærilegu.

Ræsting skólahúsnæðis

Ræsting skólahúsnæðis fer fram samkvæmt kröfum GÁMES en þær eru byggðar á reglugerð um matvælaeftirlit og hollustuhætti við framleiðslu og dreifingu matvæla nr. 522/1994.

Flokkun og endurnýting

Starfsfólk skólans er meðvitað um að náttúruauðlindir jarðarinnar eru takmarkaðar. Í samræmi við umhverfisstefnu skólans, sem byggir á þeirri sýn að endurnýting sé svarið við þverrandi uppsprettu náttúrulegra hráefna, mun fullkomnu flokkunarkerfi verða komið á.

Pappír – umbúðir

Beint er til starfsfólks að það lesi vel yfir texta á tölvuskjá og prenti skjöl helst ekki út. Þar sem því verður við komið skal reyna að fara yfir verkefni og próf rafrænt og prenta helst ekkert út nema nauðsynleg skjöl. Skulu öll skjöl þá prófarkalesin fyrir útprentun.

Öllum endurvinnanlegum pappír er safnað saman í sérstaklega merkta kassa á ljósritunarherbergjum og hann er endurnýttur eins og kostur er, annars er hann sendur til endurvinnslu.

Öllum dósum og endurvinnanlegum drykkjaumbúðum sem til falla í skólanum er safnað saman á einn stað og þær sendar til Endurvinnslunnar.

Allur pappír og umbúðir merktar skólanum skulu vera úr endurvinnanlegu efni.

Einnota drykkjarmál eru ekki notuð á vegum skólans.

Allt sorp er flokkað (pappír, plast, líffrænt og óflokkað (úrgangur til urðunar)) eða endurunnið og er reynt að draga úr efnis- og orkunotkun.

Matarsóun

Allra leiða skal leitað til að draga úr matarsóun. Kennarar og nemendur skólans skuli setja áætlun í upphafi kennslu verklegra áfanga þar sem unnið er með hráefni og hafa að markmiði að henda ekki matvælum og nýta að fullu.

Í mötuneyti nemenda vigta nemendur matinn sinn og greiða fyrir samkvæmt vigt.

Vélar – orkunýting

Í lok hvers starfsdags skal gengið úr skugga um að slökkt hafi verið á öllum ljósritunarvélum, prenturum og öðrum slíkum tækjum. Líta ber til orkunotkunar í sambandi við tölvur og hafa í huga við innkaup að velja þær sem nota lágmarksorku í hvíld, þ.e. 35 wött. Leitast skal við að nota orkusparandi rafmagnstæki og ljós eins og kostur er.

Alla lýsingu skólans skal færa yfir í led-perur og skal liggja fyrir áætlun um þá endurnýjun í samráði við Fasteignir ríkisins.

Vinnuaðstaða

Vinnuaðstaða starfsfólks skal vera eins góð og hægt er og gengið úr skugga um að lýsing sé innan réttra marka.

Húsakynni og lóð

Lögð er áhersla á að umgengi á lóð og um húsakynni skólans sé til fyrirmyndar. Sjá skólareglur. Sumarið 2022 skal setja upp skýli fyrir reiðhjól og hlaupahjól á lóð skólans og um leið hverja starfsfólk og nemendur til að nýta sér þá samgöngumáta.

Öryggismál

Kennsla í öryggismálum fer fram í öllum verklegum áföngum skólans. Auk þess eru haldnar tilskildar öryggisæfingar s.s. brunaæfingar samkvæmt lögum og reglugerðum. Í skólanum er öryggistrúnaðarráð.

Fræðsla

Menntaskólinn í Kópavogi leggur áherslu á að umhverfis- og loftslagsmál séu eitt af megin markmiðunum í námskrá skólans. Umhverfisfræði er skyldugrein fyrir alla nemendur í bæði bóknámi og verknámi, og er mikilvægi þess að virða umhverfið og ganga vel um náttúruna skyldi dregið fram í sem flestum áföngum skólans.

Lögð er áhersla á að samtvinna fræðslu og aðgerðir í umhverfis- og loftslagsmálum, bæði innan og utan skólans, til að auka líkur á að allar ákvarðanir teknar séu með sjálfbærni í huga.

Umhverfistengd verkefni

Á hverri önn verður unnið sérstaklega að umhverfis- og loftslagsmálum. Að auki fer fram sérleg úttekt á umhverfi skólans, bæði innan- og utanhúss og gerðar mælanlegar rannsóknir á stöðunni frá önn til annar. Það skal einnig unnið með grænt bókhald og fylgt stefnu um græn skref í ríkisrekstri.

Gildissvið

Umhverfis- og loftslagsstefnu skólans er fylgt eftir með þriggja ára aðgerðaráætlun sem skal endurskoða árlega. Umhverfisstefnan skal ná til allra eininga skólans. Skólameistari er ábyrgur fyrir því að þessari stefnu sé framfylgt og ber öllum starfsmönnum skólans að framfylgja þeirri stefnu í sínu starfi.

Framtíðarsýn

Það er stefna skólans að vera í forystu í umhverfismálum, viðhafa vistvænan lífsstíll og fræða nemendur og starfsfólk um umhverfismál. Aðgerðir skólans munu ávallt taka mið af þeim lögum og reglum sem eiga við á hverjum tíma sem og stefnu stjórnvalda á sviði umhverfis- og loftslagsmála.

Markmið skólans er að draga markvisst úr losun gróðurhúsalofttegunda í allri starfsemi sinni og minnka þannig neikvæð áhrif á umhverfið. Skólinn mun draga úr losun gróðurhúsalofttegunda með því að bjóða upp á skýli fyrir hlaupahjól og reiðhjól með hleðslumöguleika fyrir rafmagnshjól. Skólinn mun draga úr losun úrgangs með því að nota markvissa flokkun, með minni sóun og markvissari endurnýtingu. Með nýju mötuneyti skólans og samvinnu við rekstraraðila mötuneytis verður unnt að draga úr matarsóun og lágmarka kolefnisspor. Einnig mun skólinn draga úr orkunotkun með markvissum orkusparnaðaraðgerðum, nota orkusparandi ljósaperur og ljósastýringar. Skólinn mun kolefnisjafna ferðir sínar á vegum skólans og stefnir að því að ná fram kolefnishlutleysi fyrir árið 2030 og þar með stuðla að því að markmiðum Parísarsamkomulagsins verði náð.

Í skólanum er lögð áhersla á að fræðsla í umhverfis- og loftslagsmálum sé hluti af kjarnastarfsemi skólans og með þessari fræðslu verður mikilvægi loftslags- og umhverfismála miðlað áfram til komandi kynslóða. Hugarfarsbreyting tengd sjálfbærni og grænum lífstíl er nauðsynleg og skólinn mun leggja sitt af mörkum til að svo megi verða.

Eftirfylgni:

Menntaskólinn í Kópavogi hefur haldið grænt bókhald frá árinu 2019 þar sem helstu umhverfisþættir starfseminnar eru teknir saman. Niðurstöður þess bókhalds eru notaðar til að móta umhverfisstefnu skólans og sem grundvöllur að aðgerðaráætlun skólans til þriggja ára í senn. Umhverfisnefnd skólans hefur það hlutverk að rýna umhverfismarkmið skólans árlega, uppfæra eftir þörfum og vera umhverfisfulltrúa til fulltingis um eftirlit með framgangi umhverfis- og loftslagsstefnu skólans.

Allir starfsmenn og nemendur skólans skulu í hvívetna fylgja stefnu skólans í umhverfis- og loftslagsmálum.

Lög og reglur

 • Umhverfis- og loftslagsstefna Menntaskólans í Kópavogi styður stefnu skólans og gildandi lög og reglugerðir hverju sinni.
 • Lög nr. 70/2012 ásamt síðari breytingum (Lög um loftslagsmál)
 • Lög nr. 98/2020 (Lög um breytingu á lögum nr. 70/2012)
 • Lög nr. 55/2002 (Lög um meðhöndlun úrgangs)
 • Upplýsingalög, nr. 140/2012
 • Efnalög, nr. 61/2013
 • Lög nr.92/2008 (Lög um framhaldsskóla)
 • Aðalnámskrá framhaldsskóla
 • Reglugerð um fráveitur og skolp nr. 798/1999 ásamt breytingum í reglugerð 450/2009
 • Reglugerð um meðhöndlun úrgangs nr. 737/2003 ásamt áorðnum breytingum.
 • Parísarsamkomulagið.
Síðast uppfært 12. mars 2024