STE-019 Meðferð mála

Leitast skal við að leysa ágreiningsmál innan skólans. Miðað skal við að umsjónarkennarar og námsráðgjafar séu hafðir með í ráðum við lausn ágreiningsmála sem varða skjólstæðinga þeirra. Ágreiningsmálum sem varða einstaka nemendur og ekki leysast í samskiptum einstaklinga skal vísa til skólaráðs. Veita skal nemendum skriflega áminningu áður en til refsingar kemur nema brotið sé þess eðlis að því verði ekki við komið, svo sem brot á almennum hegningarlögum.

Rísi ágreiningur milli nemenda, kennara og/eða annarra starfsmanna skólans og takist hlutaðeigandi ekki að finna lausn á málinu skal því vísað til skólameistara. Uni málsaðilar ekki niðurstöðum skólameistara má vísa málinu til menntamálaráðuneytis. Telji nemandi eða forráðamenn hans, sé nemandinn yngri en 18 ára, að brotið hafi verið á rétti nemandans, sbr. skólareglur, þannig að ástæða sé til að bera fram kvörtun skulu þeir snúa sér til viðkomandi kennara, umsjónarkennara eða skólameistara.

Nemandi sem staðinn er að misferli í prófi skal vísa frá prófi og getur hann átt von á brottvikningu úr skóla, tímabundið eða til frambúðar, eftir alvarleika brots. Hið sama gildir um misferli þar sem námsmat felst í öðru en skriflegu eða munnlegu prófi. Komi upp ágreiningur milli nemenda og kennara um mat úrlausnar sem ekki tekst að leysa innan skólans skal skólameistari kveða til prófdómara til þess að fara yfir úrlausnina að höfðu samráði við fagstjóra. Úrskurður prófdómara skal gilda.

Á grundvelli reglna um skólasókn er hægt að vísa nemanda úr skóla vegna lélegrar skólasóknar og skal hann þá áður hafa fengið skriflega viðvörun frá viðkomandi umsjónarkennara eða stjórnanda enda hafi verið ljóst að í óefni stefndi. Endanleg brottvikning er á ábyrgð skólameistra og skal hann leita umsagnar skólaráðs áður en til hennar kemur.

Síðast uppfært 12. mars 2024