STE-016 Upplýsingatæknistefna

Stefna Menntaskólans í Kópavogi í upplýsingatækni 2019-2021

Markmið Menntaskólans í Kópavogi er að nýta upplýsingatæknina sem verkfæri í starfi skólans til að þróa framsækna kennsluhætti og námsaðferðir og efla þannig nám og kennslu. Skólinn leggur áherslu á að allir nemendur fái tækifæri til að tileinka sér nauðsynlega tölvufærni og upplýsingalæsi til að afla sér upplýsinga, þekkingar og getu til að vinna úr upplýsingum á gagnrýninn og skapandi hátt. Færni í notkun tölva og meðferð upplýsinga er sjálfsögð krafa á vinnumarkaðnum og Menntaskólinn í Kópavogi vill undirbúa nemendur sína til starfa í alþjóðlegu þekkingar- og upplýsingasamfélagi framtíðarinnar. Menntaskólinn í Kópavogi vill sýna frumkvæði og forystu um nýtingu upplýsingatækni til að stuðla að bættum árangri, betra námi og kennslu, betri þjónustu og aukinni skilvirkni.

Menntaskólinn í Kópavogi tekur mið af stefnu menntamálaráðuneytisins „Áræði með ábyrgð“, um upplýsingatækni í menntun, menningu og vísindum, stefnu ríkisstjórnarinnar „Netríkið Ísland“ um upplýsingasamfélagið 2008-2012.

LEIÐIR

Námsumhverfi

  • Menntaskólinn í Kópavogi vill stuðla að því að allir nemendur skólans hafi tölvufærni og upplýsingalæsi þannig að þeir geti nýtt sér upplýsingatækni í daglegu námi sínu.
  • Skólinn leggur áherslu á að kennarar búi yfir færni til að nýta sér upplýsingatækni í starfi sínu. Til að mæta hraðri þróun tækninnar verður kennurum í MK áfram tryggð þjálfun, ráðgjöf og stuðningur við að tileinka sér nýjungar í hugbúnaði og tölvutækni, m.a. með námskeiðum, vinnustofum og þjónustuveri.
  • Skólinn býður nemendum og kennurum upp á rafrænt námsstjórnunarkerfi þar sem allar upplýsingar eru aðgengilegar.
  • Lögð verður áhersla á kennslufræði tölvustudds náms, s.s. með áherslu á verkefnamiðað nám með rafrænum skilum, bæði einstaklings- og hópverkefni, lausnaleit á netinu, sjálfstæð og öguð vinnubrögð t.d. í ritvinnslu, gagnrýna þekkingaröflun nemenda á netinu og aukna samvinnu.
  • Stefnt skal að því að allt kennsluefni þar með talið útgefnar kennslubækur verði á rafrænu formi eins og kostur er. Nemendum stendur til boða fjölbreytilegt úrval námsefnis og verkefna á rafrænu formi sem hægt er að sníða að námsframvindu, getu og áhuga hvers og eins.
  • Stefnt skal að sem minnstri pappírsnotkun innan skólans og áhersla lögð á að verkefni og námsefni sé á rafrænu formi.
  • Lögð verði áhersla á að nýta upplýsingatækni við námsmat og gætt verði að fjölbreytileika í rafrænu námsmati og samtengingu við viðurkennda próffræði.

 

Þjónusta

  • Skólinn leggur áherslu á öfluga kerfisstjórn og að bjóða á hverjum tíma fljótvirka og örugga tækniþjónustu fyrir starfsmenn og nemendur.
  • Skólinn nýtir sameiginlegt nemendaskráningarkerfi INNU, heldur úti heimasíðu og miðlar upplýsingum til nemenda, foreldra og starfsmanna.
  • Skólinn nýtir skýjalausnir við þjónustu eins og t.d. Microsoft OneDrive og einnig er tölvupóstur starfsmanna hýstur hjá Microsoft. Sami möguleiki stendur einnig öllum nemendum til boða.

 

Tæki og hugbúnaður

  • Skólinn mun leitast við að hafa vél- og hugbúnað af bestu gerð á hverjum tíma þannig að ætíð sé hægt að nýta fullkomnustu tækni við kennslu og miðlun upplýsinga.
  • Skólinn vill nýta sér þau tækifæri sem upplýsingatæknin býður upp á, leggur áherslu á að allir nemendur hafi yfir fartölvu að ráða og nýti hana í öllum námsgreinum.
  • Skólinn býður nemendum og kennurum upp á rafrænt námsstjórnunarkerfi sem er notað í öllum kenndum áföngum í MK.
  • Skólinn nýtir sameiginlegan gagnagrunn framhaldsskóla, upplýsingakerfið INNU, til nemendaskráningar.
  • Skólinn mun leitast við að tryggja nemendum og starfsmönnum öruggan og fljótvirkan aðgang að gagnasvæðum og samskiptamiðlum með öflugu háhraðaneti og þráðlausu netkerfi.
  • Skólinn vill tryggja að hugbúnaður sé ætíð valinn með það að markmiði að þjóna nemendum og starfsmönnum á fljótvirkan og öruggan máta. Jafnframt að hugbúnaður sé fjölbreyttur og svari þörfum mismunandi nemendahópa
  • Skólinn mun hafa til taks fartölvur til láns í kennslustofur til að mæta þörfum einstakra nemenda sem vegna sérstakra aðstæðna hafa ekki fartölvu. Ennfremur hafa nemendur aðgang að borðtölvum á bókasafni.
  • Skólinn vill nýta sér þá möguleika og þau tækifærir sem felast í vistun gagna í skýinu þ.e. hjá hýsingaraðila eins og Microsoft. Eins vill skólinn nýta sér hugbúnað sem veittur er í té af aðilum sem bjóða skýjalausnir.

 

Ábyrgð og öryggi

  • Skólinn vill stuðla að því að nemendur noti tölvutæknina og netið á ábyrgan og öruggan hátt og hindra misnotkun, m.a. með því að loka fyrir aðgengi að ólöglegu og óæskilegu efni á netinu.
  • Skólinn vill tryggja nemendum og starfsmönnum öryggi í miðlun upplýsinga og notkun samskiptatækni, auk þess að gæta fyllsta öryggis hvað varðar varðveislu gagna og búnaðar.

 

Nýsköpun og árangur

  • Skólinn leggur áherslu á virkt nýsköpunarstarf og tilraunir með nýtingu tækni- og tölvustýrðs búnaðar í verknámi og verklegum áföngum raungreina.
  • Skólinn vill þróa starfshætti sína og kanna ávallt nýjar leiðir í námi og kennslu með aðstoð tölvutækni, m.a. með fjarnámi og dreifnámi þar sem samskipti fara fram í gegnum netið.
  • Skólinn vill kynna nýjustu tækni og möguleika í framsetningu á rafrænu námsefni og rafrænum kennslubókum.
  • Skólinn vinnur markvisst að því að meta notkun og árangur af nýtingu upplýsingatækninnar í skólastarfinu.
Síðast uppfært 12. mars 2024